10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (3346)

43. mál, veiting prestakalla

*Flm. (Magnús Jónsson) :

Þau lög, sem farið er fram á að breyta hér dálítið, því að hér er ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða, eru l. frá 1915 um veitingu prestakalla.

Ég skal ekki rekja þessi mál gegnum alla Íslandssögu. En minnast má þess frá fyrri öldum, að Staðamál stóðu mjög um það, hverjir ættu að hafa réttinn til að veita prestaköll, og mörg deilan þeim skyld hefur risið hér síðan.

Í ordinanzíu Kristjáns III. er söfnuðum veittur eins konar köllunarréttur, og er það nýjung í anda mótmælendakristninnar. Svipuð ákvæði má finna í Rípa-ordinanzíu og ordinanzíu Kristjáns IV., þ. e. að vissir menn í söfnuðinum eiga tillögurétt um það, hver eigi að verða prestur hans. Þegar meir fer að nálgast okkar tíma, er farið að skipta prestaköllum í 3 eða 4 flokka, og er konungsveiting á stærstu og tekjumestu embættunum, veraldleg stjórnarvöld landsins ráða yfir embættunum í miðið, en tekjuminnstu prestaköllin veittu biskupar.

Um 1880 fer að koma hreyfing á málið. Það er árið 1881, að frv. er borið fram á Alþ. um, að söfnuðir skuli kjósa presta, og náði það að vísu samþykki þingsins, en eigi konungsstaðfestingu eða kirkjustjórnarinnar. Á sama veg fór um frv. svipaðs efnis 1883. Annars voru þá ýmsir möguleikar ræddir, svo sem að sóknarnefndir hefðu hönd í bagga um val presta, og felst í því eitthvað af hinum eldri hugmyndum og venjum um köllunarrétt. Það var loks 1885, að stjórnin lét undan óskum manna og lagði fyrir Alþ. .frv. um hluttöku safnaða í vali presta. Það varð að l. 1886, og er það stofn núv. prestskosningalaga.

Réttur safnaðanna var þá mjög takmarkaður. Stjórnin hafði rétt til að velja úr umsækjendum þrjá, sem kallað var, að kæmust á skrá, og skyldi kosið um þá eina, eða um tvo, ef aðeins þrír höfðu sótt. Það sýndi sig brátt, að stigið hafði verið hálft spor, semi stíga þurfti til fulls. Þegar milliþn. hafði starfað í málinu 1907, lagði hún til, að söfnuðir fengju að kjósa um alla umsækjendur. Það fékkst fram, og fleiri breytingar, heldur smávægilegar, voru síðan gerðar.

Þróun sú, sem ég hef nokkuð lýst, táknar aðeins stiklur á þeirri leið, sem alls ekki er farin á enda enn, en frv., sem fyrir liggur, stefnir áfram í átt að takmarkinu. Ég hef lagt þar til að taka upp fullkomnar prestskosningar, á sinn máta eins og menn kjósa sér alþm. Ef löglega er boðaður kjörfundur, þá er sá kosinn, sem fær þar flest atkvæðin. Við, sem þekkjum svo vel til kosninga, ættum að geta fallizt á þá aðferð. Ég sé ekki, hvað við getum haft á móti því í lýðræðislandi, að sá sé kosinn, sem fær flest atkvæðin.

Á hinn bóginn get ég sagt, að sjálfur er ég ekkert hrifinn af prestskosningum og æsingum og erjum, sem fylgja þeim stundum. Skammt er að minnast ýmissa dæma í því sambandi. Án þess að ég vilji gefa hér nokkurt tilefni til eldhússumræðna um þau, má geta þess dæmis, að hér í Reykjavík varð nýlega mikil óánægja af því, að ekki var farið eftir kosningu, er prestsembætti voru veitt. Stjórnin hafði fullan lagarétt til að veita embættin eins og hún gerði, en þau lög eru bara ekki í samræmi við hugsun nútíðarmanna. Aðalbreyt. í seinni hluta þessa frv. er ekkert annað en færa þessar kosningar til samræmis við nútíðarhugsun.

Um smávægilegar breyt. í frv. þarf færra að ræða. Mér finnst ósköp andkannalegt, að það skuli endilega þurfa að telja öll atkvæði prestskosninga í Reykjavík, þegar vandræðalaust er talið að telja þingkosningaatkvæði heima í héraði. Vegna sparnaðar var þetta sett í 1. 1915, en ég held við förum ekki að horfa í slík smáatriði nú. Kærufrestur er samkv. l. aðeins 3 dagar. En flest atriði, sem kæruverð þykja, koma ekki í ljós fyrr en í sambandi við atkvæðatalning síðar. Þykir mér því sanngjarnt að lengja kærufrestinn.

Það sýnist vera einfaldast, að kjörstjórn sé heima í prófastsdæminu. Tryggja má það, að löglærður maður sé við, því að víðast er skammt til sýslumanns. Annars hygg ég, að óhætt væri að trúa próföstum fyrir þeirri hlið málsins. Prestar vita það yfirleitt, hvað í prestkosningal. felst.

Ég hef kannske farið dálítið aftan að siðunum með því að byrja aftan á frv. Í 1. gr. hef ég gert ráð fyrir köllunarrétti safnaða í nýrri mynd. Prófastur kallar á fund sóknarnefndarmenn þess prestakalls, sem losnað hefur. Náist þar samþykki 2/3 þeirra, sem fundinn sækja, um að kalla ákveðinn prest, skal kalla saman safnaðarfund í hverri sókn prestakallsins samkv. 3. gr. 1. nr. 36 frá 1907, og skal í fundarboði skýrt frá, hvað fyrir fundinum liggi að ákveða. Verði köllunin samþ. á öllum fundunum, er presturinn rétt kallaður, og sé hann samþykkur, er skylt að veita honum embættið.

Ástæður mínar til þessarar uppástungu eru þær, að ég er ekkert hrifinn af prestskosningum eins og þær vilja verða í framkvæmdinni. Ég get sagt um það dálítið dæmi. Ég hef einu sinni sótt um prestakall. Það þar á Ísafirði. Þá var ég í annarri heimsálfu, og allt gekk eins og í sögu, ég kem heim til að taka við starfinu, þegar allt er gengið um garð. Hvað haldið þið sé það fyrsta, sem ég frétti, þegar ég stíg á land? Það er, að þarna hafi staðið einhver hin grimmasta senna um kosninguna og þeir óánægðu á einum staðnum séu búnir að mynda fríkirkju og á öðrum staðnum að mynda hana. Það má með réttu eða röngu bendla prestinn við áróðurinn og deilurnar í sambandi við kosninguna, en síðan á hann að taka að sér hlutverk friðflytjandans. Það getur reynzt nöpur aðkoma.

Það hefur verið mikið rætt, m. a. á prestastefnum, hvort ekki væri hægt að finna einhverja aðra aðferð. Fyrir alllöngu síðan bar ég fram till. um þau efni að fela þar til völdum mönnum innan prestakallsins og utan að koma sér saman um prestsval, þegar unnt væri. Ég var þá of óreyndur í pólitík til að vita, að slíkar till. mundu aldrei fá mikinn byr, menn mundu aldrei vilja afsala sér hinum beinu kosningum. Engu að síður held ég, að köllunarréttur, sem er alls ekki óþekktur með sumum frændþjóðum okkar og mjög tíðkaður í Norður-Ameríku, væri vel reynandi hér á landi. Svipað hefur verið reynt hér fyrir mörgum öldum, þótt það legðist niður sakir ráðríkis yfirvaldanna á einveldistímunum.

Um það má deila, hverjum eigi að fela að fara með köllunarréttinn. En mér finnst það standa sóknarnefndum næst að eiga frumkvæðið, en söfnuðunum sjálfum að ákveða, hvort þeir vilja prestinn. Fyrst að því búnu reynir á það, hvort sá prestur er fús til að taka kölluninni. Ég sé ekkert illt í því, þótt söfnuðir, sem vildu eindregið fá einhvern ákveðinn prest, greiddu fyrir því með því að leggja eitthvað á sig til að bæta húsnæði prestsseturs og annað slíkt. Ég held, að ákvæði 1. gr. um köllunarréttinn séu svo varfærin, að hann yrði varla misnotaður.

Með þessum köllunarrétti er lýðræðið í söfnuðunum algerlega tryggt. Hins vegar dettur mér ekki í hug, að þarna sé komið í veg fyrir allan áróður og aðra galla núverandi prestskosninga, en mjög drægi þetta úr þeim. Eiginleg kosningabarátta kæmist tæplega af stað áður en safnaðarnefndir tækju ákvörðun sína, og úr því væri svigrúmið til áróðurs minna en nú er. Þarna gætu söfnuðir gengið framhjá öllum þeim, sem um mundu sækja með núv. fyrirkomulagi, og það er alveg eins líklegt, að prestur, sem léti hefja áróður fyrir sér samstundis og kallið losnar, yrði sízt kallaður.

Aðalatriði frv. eru þá tvö, köllunarrétturinn og, þegar hann kemur ekki að gagni, þá fullkomnar prestskosningar, sem skera einar úr um það, hver verður prestur. Ég óska þess, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og til menntmn., nema sérstaklega verði mælzt til þess, að önnur n. fjalli um málið.