20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (3376)

88. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Pétur Ottesen:

Ég á hér brtt. við þetta frv., og er brtt. á þskj. 579, þar sem farið er fram á það, að tekin verði inn í frv. þetta um sölu kirkjujarðarinnar Hvanneyrar í Siglufirði heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja Vestmannaeyjakaupstað lóðir þær og lendur í Vestmannaeyjum, sem eru þar ríkiseign, og að hvorar tveggja þessar heimildir haldist í hendur, því að í Hvanneyrarlandi er mikið af þeim lóðum einnig, sem Siglufjarðarkaupstaður stendur á. Þessa brtt. um Vestmannaeyjalóðirnar flyt ég eftir ósk hv. þm. Vestm. (JJós), en ástæðan til þess, að hann ekki sjálfur bar fram þessa brtt. við frv., þegar það var í hv. Ed., var sú, að honum barst ekki áskorun frá bæjarstj. Vestmannaeyjakaupstaðar um það að bera fram þessa ósk fyrr en málið var búið að ganga í gegnum allar þrjár umr. í hv. Ed. og það var komið til þessarar hv. d. Þar af leiðandi var hv. þm. Vestm. vitanlega búinn að missa þau tök á þessu máli, að hann gæti sjálfur beitt sér fyrir þessu. Og af því að engar brtt. komu fram við þetta frv. hér í hv. Nd., voru enn fremur engar horfur á því, að það mundi koma til hv. Ed. aftur, heldur yrði gengið frá frv: sem l. í þessari hv. d. Mér er ljúft að verða við ósk hv. þm. Vestm. um þetta, af því að ég lít svo á, að það sé eðlilegt og sanngjarnt, að alveg það sama verði látið taka til þessara beggja staða, þ. e. sölu Hvanneyrar og þess lands, sem Siglufjarðarkaupstaður er reistur á, og sölu Vestmannaeyja, þegar óskir um hvort tveggja eru fram bornar og liggja fyrir hæstv. Alþ.

Ég skal geta þess, að áður hafa komið fram á hæstv. Alþ. till. um að heimila ríkisstj. að selja hvora. tveggja þessa staði. Ég held, að það hafi verið oftar en einu sinni. flutt frv. um það hér í hv. Nd. að selja Siglufjarðarkaupstað Hvanneyrarland ásamt lóðum þeim, sem kaupstaðurinn stendur á, en þær till. náðu ekki fram að ganga. Árið 1925 var borið fram frv. í hv. Ed. frá hv. þm. Vestm. (JJós) um að selja þessar lóðir í Vestmannaeyjum. Það frv. náði samþ. hv. Ed., en komst ekki lengra áleiðis. Nú um langt skeið hafa aftur ekki komið fram óskir, sem gengið hafa í þessa átt, eftir þær niðurstöður, sem áður voru fengnar um þetta hér á hæstv. Alþ. Nú virðist, eftir framgangi þessa máls í hv. Ed. og þeim undirtektum, sem þetta frv. hefur fengið hér í hv. Nd., vera orðin stefnubreyt., því að þetta frv. var samþ. mótmælalaust í hv. Ed., og hér hefur það ekki sætt neinum andmælum, heldur leggur n. sú, sem málinu var vísað til, eindregið til, að þetta frv. verði samþ. Ég geng því út frá því sem alveg sjálfsögðum og eðlilegum hlut, að með sama hætti verði tekið undir þær óskir, sem nú hafa komið hér fram frá bæjarstj. Vestmannaeyjakaupstaðar um það, að kaupstaðurinn fái keyptar þær lóðir þar, sem eru ríkiseign, af því að það eru sömu ástæður, sem liggja til grundvallar fyrir hvoru tveggja, því og óskum þeim, sem koma fram í þessu frv. Það þykir betra og hagkvæmara, að bæjarstj. hafi fullkomin ráð á þessum löndum. Það er vitað, að uppbygging stærri þorpa og kaupstaða er gerð eftir ákveðnu skipulagi, og því þarf að hafa góð og sterk tök á þeim málum, til þess að hægt sé út í æsar að fylgja þessu skipulagi og nota lönd og lóðir sem hagkvæmast, því að það er vitanlega mikið atriði í kaupstöðum og þéttbýli.

Mér þykir ekki, a. m. k. að svo komnu máli, ástæða til að fara að rekja þær ástæður hér, sem færðar hafa verið fram fyrir þessari beiðni að því er Siglufjörð snertir, og ekki heldur þau rök, sem hv. þm. Vestm. færði fyrir sínu máli hér fyrir nokkrum árum, þegar þetta mál lá fyrir, og get ég alveg látið nægja að vitna til þeirra hvorra tveggja, af því að ég tel það nægilegt, miðað við þá afstöðu, sem hæstv. Alþ. hefur tekið gagnvart þessu máli. Í Vestmannaeyjum er, eins og kunnugt er, fólk, sem hefur með miklum dugnaði sótt sjó, en þó hefur það fólk ekki síður sýnt dugnað og þrautseigju í því að rækta landið þar, sem þó mun vera eitt hið versta land til ræktunar, sem nokkurs staðar þekkist á byggðu bóli. Mér þóttu það hin mestu undur, er ég sá það, hve fólkið hafði sótt þessa ræktun af miklum dugnaði, þar sem svo miklu grjóti þurfti að ryðja úr landinu, sem er mesti þrándur í götu fyrir allri ræktun. Mér virðist því forsjá þessa mikilsverða staðar sé vel borgið að því er lóðir þessar snertir með því að afhenda það land gersamlega í hendur því fólki, til ráðstöfunar, sem þar býr og hefur sýnt svona mikla framtakssemi og dugnað.