20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (3377)

88. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Ísleifur Högnason:

Mér þykir skylt, vegna þess að ég er hér nærstaddur, að þakka hv. þm. Borgf. það mikla lof, sem hann ber á Vestmannaeyinga fyrir dugnað.

En um þetta mál verð ég annars að segja það, að ég hef ekki orðið þess var, að bæjarstj. Vestmannaeyjakaupstaðar hafi flutt núna nýlega neinar óskir um kaup á Vestmannaeyjalóðum og lendum. Það mun þá vera alveg nýtt. Svo mikið er víst, að bæjarstj. hefur ekki talað við mig um þetta, né mér vitanlega gert nokkuð til að afla málinu fylgis á þingi.

Annars álít ég það mál svo miklu stórbrotnara en að selja Hvanneyrarland, að ég álít, að þetta mál þurfi athugun í n., áður en þessi brtt. fær endanlega afgr. hér í hv. þd. Það er mjög hætt við, að hv. þm. vilji athuga málið nánar og n. sjálf, áður en ráðizt er í slíkt. Ég get ekki í fljótu bragði tekið afstöðu til málsins. Aðeins finnst mér, ef sala færi fram á lóðum og lendum í Vestmannaeyjum, að sjá ætti til þess, að bærinn mætti ekki selja lóðir og lönd til einstaklinga í Vestmannaeyjum, ef bærinn fengi þetta keypt. Því það er galli á ýmsum leigumálum í Vestmannaeyjum, að þeir hafa orðið til trafala vegna brasks með lóðarréttindin. Þess vegna álít ég nauðsynlegt að athuga þetta, sem brtt. felur í sér, vandlega, áður en gengið er frá afgr. brtt. Ég álit, ef sala færi fram á þjóðjörðum til Vestmannaeyja eða annarra bæjarfélaga, að Alþ. ætti að fyrirbyggja það, að lóðirnar gætu lent í braski, sem mundi hindra opinberar framkvæmdir á þessum lóðum.

Það er rétt, að þetta, sem í brtt. felst fyrir Vestmannaeyjar, hefur verið borið hér fram á Alþ. fyrir mörgum árum. Það munu vera kringum tveir áratugir síðan, en var ekki samþ. á þingi þá. En af því að hér er um nokkuð dýra eign að ræða, þá ætti hæstv. Alþ., ef það selur hana, að ganga frá því endanlega þannig, með hvaða kjörum ætti að selja þetta land í Vestmannaeyjum, en ekki setja hæstv. ríkisstj. það algerlega í sjálfsvald, hvernig þessi sala yrði og með hvaða kjörum. Og til þess að eiga það síður á hættu, að brtt. hv. þm. Borgf. verði felld, sem gera má kannske ráð fyrir, ef greidd eru atkv. um hana nú við þessa umr. tafarlaust, vil ég, að málinu verði vísað aftur til þeirrar hv. n., sem það kom frá, til nákvæmrar og ýtarlegrar rannsóknar.