01.04.1941
Neðri deild: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3425)

67. mál, uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga

*Bjarni Bjarnason:

Ég vil taka undir það, sem fyrsti flm. þessarar till., hv. þm. V.-Sk., sagði um brýna nauðsyn þess, að slík uppeldisstofnun sem þar um ræðir kæmist á fót. Ég vil aðeins bæta því við, að kennarar finna mjög til þess, hversu skaðlegt það er, að vangæf börn eða vandræðabörn fái ekki sérstakt uppeldi og sérstaka aðhlynningu. Einnig finna foreldrar og heimili, sem eiga að annast um uppeldi slíkra barna, mjög sárt til þess, því að þau valda á engan hátt því hlutverki, sem þau þurfa og eiga að hafa á hendi gagnvart þessum aumingjum.

Það er sérstaklega tvennt, sem þarf að íhuga í sambandi við þetta stórmál. Það eru þau áhrif, sem vangæf börn og unglingar hafa á umhverfi sitt og þá sérstaklega á þau börn og unglinga, sem alast upp með þeim. Það er alveg ómetanlegt, hve mikil áhrif þessi vangæfu ungmenni geta haft á þá, sem alast upp með þeim.

Í öðru lagi er það stórkostlega athugunarvert, hve tímafrekt það er fyrir kennara og heimili að þurfa að sinna þessum ungmennum, sem þurfa svo mikillar umönnunar við. Það ber líka oft við, að sá tími, sem fer til að kenna þeim, er að verulegu leyti tekinn frá þeim börnum, sem eru vel greind. Það ber e. t. v. stundum við hjá duglegum kennurum, að þau börn, sem eru siðprúð og eftirtektarsöm, verði frekar útundan en önnur.

Þeir erfiðleikar, sem eru í sambandi við vangæf börn og unglinga, geta sérstaklega stafað af tvennu. Annaðhvort því, að meðfæddar gáfur og hæfileikar eru takmarkaðir, eða þá í öðru lagi, að um lélegt uppeldi sé að ræða. Hvor ástæðan, sem tekin er til athugunar, þá er hér um svo þýðingarmikið mál fyrir þjóðfélagið að ræða, að það er algerlega óviðunandi, að Alþ. geri ekki einhver þau átök í þessu máli, sem skeri úr um það, hvort unnt er að koma þessum einstaklingum lengra en enn hefur tekizt, með því að stofna sérstakt uppeldisheimili handa þeim. Sú leið, að hafa þau á heimilum og í skólum með öðrum börnum, er ekki viðunandi. Ég vil leggja áherzlu á það, að framkvæmdir í þessu máli eru þjóðarnauðsyn: