01.04.1941
Neðri deild: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (3426)

67. mál, uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Það hefur þótt brenna við, einkum í hinum stærri kaupstöðum hér á landi á síðari árum, að allstórir hópar unglinga og barna hafa komizt út á alls konar glapstigu, og ekki hvað sízt eftir að þau voru komin úr barnaskólunum.

Ég veit ekki alveg með vissu, hvað vakir fyrir hv. flm. þessarar till., hvort ætlazt er til þess, að börn, sem eru andlega vanþroska og eiga erfitt með að fylgjast með skólasystkinum sínum í venjulegum skólum, verði tekin á þessa uppeldisstofnun, eða hvort þessi stofnun á að vera handa börnum og unglingum, sem sökum einhverra misbresta hafa lent út á glapstigu og vandræði. Mig langar til að vita, hvort með þessari till. er sérstaklega ætlazt til að koma upp betrunarheimili eða heimili fyrir börn, sem ekki gætu fylgzt með jafnöldrum sínum í skólum. Ég tel, að þörfin fyrir slíkt betrunarheimili sé ákaflega brýn, einkum þó fyrir Reykjavík. Barnaverndarnefnd og barnaverndarráð, ásamt ráðunaut þessara stofnana, dr. Símoni Jóh. Ágústssyni, hafa nokkrum sinnum snúið sér til félmrn. út af þessum málum og lagt fram skýr og gild rök fyrir því, að full þörf sé á sérstakri stofnun til að annast uppeldi óknyttaunglinga (ef ég mætti nota það orð), sem allmikið hefur borið á síðustu árin, sérstaklega hér í Reykjavík, Þar sem mannfjöldinn er mestur. Það er brýn nauðsyn að stofna slíkt uppeldisheimili sem allra fyrst.

Það hefur komið skýrt fram í viðtölum barnaverndarnefndar Reykjavíkur við ráðun., að æskilegt væri, að keypt yrði tiltekin jörð á Suðausturlandi, þar sem unnt væri að stofna uppeldisheimili fyrir vandræðaunglinga.

Það er varla unnt að sameina í einni stofnun uppeldisheimili fyrir þau börn, sem eru illa gefin en ekkert sérstaklega athugaverð frá siðferðilegu sjónarmiði, og betrunarheimili fyrir þá unglinga, sem leiðzt hafa út á glapstigu í solli hinna stærri bæja, annaðhvort vegna þess, að aðbúðin á heimilunum, þar sem þau alast upp, hefur verið ófullnægjandi, eða þá að uppeldisleg áhrif hafa komið þeim út á þessa hálu braut.

Það, sem að mínu viti er aðalatriðið í þessu máli, og e. t. v. kemur ekki nógu skýrt fram í till.,er, að fjárveitingarvaldið komi því í kring hið allra bráðasta, að ríkið eignist heppilega jörð á Suðurlandi fyrir slíkt betrunarheimili, þar sem unnt væri að láta vandræðaunglinga dvelja nokkra mánuði undir aðgæzlu, þar sem leitazt væri við að snúa þeim frá villu síns vegar. Þetta yrði um leið vinnustaður, því að þar mundi verða rekinn búskapur eða aðrar framkvæmdir, sem hægt væri að láta unglingana vinna að. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég fagna því, að þessi till. er komin fram, og mér virðist, að skilja beri hana á þann veg, að það muni vera unglingar, sem lent hafa á glapstigu, sem ætlazt sé til að komið verði fyrir á þessari uppeldisstofnun.

Ég þykist fullviss um, að núverandi ríkisstj. muni, svo fljótt sem kostur er á, eftir að greinilegur vilji Alþ, hefur komið fram í þessu máli, hrinda af stað einhverjum framkvæmdum, jafnvel áður en búið er að setja fullkomna löggjöf um þetta mál.

Ég vil fá að heyra skoðun fyrsta flm. þessarar till., hv. þm. V.-Sk., á því, hvort flm. væru þess ekki hvetjandi, að framkvæmdum yrði hrundið af stað sem fyrst, því að það verður að ganga út frá því, að löggjöf um þetta verði ekki sett fyrr en á næsta Alþ. En ég tel brýna nauðsyn á, að ríkið stofni sem fyrst uppeldisheimili, sérstaklega fyrir óknyttaunglinga eða þá unglinga, sem hafa villzt afvega í siðferðilegri breytni sinni.