01.04.1941
Neðri deild: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (3427)

67. mál, uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga

Flm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti! Ég verð að byrja ræðu mína á því að þakka hæstv. ráðh. (StJSt) fyrir ummæli hans, er virtust henda í þá átt, að hann væri eindreginn stuðningsmaður þessa máls. Í öðru lagi verð ég að gefnu tilefni að svara nokkrum spurningum frá honum, og skal ég þá strax svara því, er hann spurði síðast um, hvort við flm. þessa frv. mundum taka því fegins hendi, að stigið væri spor í rétta átt og hafizt handa um framkvæmdir, þó að ekki væri búið að setja fullkomna löggjöf um þetta efni. Viðvíkjandi því atriði, sem hér um ræðir, að hið opinbera geri eitthvað til þess að útvega óknyttaunglingum verustað, vil ég taka .það fram, að vafalaust munu allir vera á einu máli um það, að æskilegt sé að hrinda slíkum framkvæmdum af stað, og því fyrr því betra.

En viðvíkjandi því atriði þessa máls, sem hæstv. ráðh. virtist ekki vera fullljóst, hvort hér ætti að vera eins konar skóli fyrir andlega óþroskuð börn eða betrunarheimili fyrir siðferðilega brotleg börn eingöngu, eða þá hvort tveggja, verð ég að segja það, að í raun og veru hljóta bæði þessi atriði að koma til greina, því að hér ber allt að sama brunni, þegar þetta mál er athugað niður í kjölinn. Réttarsálfræðilega og læknissálfræðilega mun nú vera almennt talið, a. m. k. hvað börn áhrærir og jafnvel alla afbrotamenn, að afbrotin eigi rót sína að rekja til uppeldis eða upplags, er mætti laga, ef það væri gert í tíma hjá æskulýðnum eða helzt börnunum. Það virðist engum vafa bundið, að mikill hluti afbrotalýðsins meðal barna eru andlega vanþroskuð börn, aðallega lítt gáfuð börn eða þá börn, sem vantar einhverja andlega hæfileika, og sú vöntun kemur í ljós í afbrotum í siðferðilegu tilliti. Slík börn þurfa sérstaka meðferð, uppeldi og kennslu. Slík börn geta á engan hátt átt samleið með öðrum börnum í skóla, sem eru „normal“, eða eins og við viljum hafa mannkynið. Þetta atriði tók hv. 2. þm. Árn. mjög skýrt og réttilega fram.

Þess vegna stefnir þessi till. í þá átt, að reist verði uppeldisstofnun fyrir öll vanþroska börn, bæði námslega vanþroska og siðferðilega vanþroska, enda ber þetta að sama brunni.

Hitt verður á valdi hæstv. ríkisstj., hvort hún sér sér fært að ráðast í framkvæmdir fyrst um sinn.

Ef svo er sem hæstv. ráðh. var að tala um, að svo ört aukist afbrot, sem börnin fremja á æskuskeiði, verður eitthvað til bragðs að taka, svo að ekki stafi af því vandræði. Verður ekki hægt að láta hjá líða að hefjast handa í þessu efni. Það verður ekki einungis á valdi ríkisstj. að hrinda þessu máli í framkvæmd, heldur einnig hitt, hvernig löggjöfin verður. Fróðir menn verða að skipta æskulýðnum í þroska og vanþroska börn eftir því, hvernig siðferðisþroski þeirra er, þó að eðlið upphaflega sé hið sama. Við nefndarm. erum að mestu leyti sammála hæstv. ráðh., þó að honum sé ef til vill ekki vel ljós meiningin. Það sem við flm. meinum, er í stuttu máli þetta: Að hið opinbera láti sig málið skipta og reyni að koma upp stofnun fyrir þessi vangæfu og vanþroska börn. Ég vil að síðustu benda á það, að einmitt þetta hefur ljóst verið áður, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp 1. gr. þess frv., sem Guðrún heitin Lárusdóttir flutti í Ed. oftar en einu sinni og á þingi 1937 kom út full grg. fyrir. Fyrsta gr. hljóðar svo : „Vangæf börn og unglingar eru í 1. þessum talin drengir og stúlkur, sem eru svo siðferðislega vanþroska, að þau brjóta hegningarl., sýna vítaverða ósiðsemi eða eru svo ódæl heima fyrir, að aðstandendur og kennarar ráða ekki við þau.“ Þetta allt tekur til þess, sem ég hef verið að sýna fram á, að við flm. ætluðumst til með þessu frv.