17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (3437)

97. mál, mannanöfn o. fl.

Gísli Guðmundsson:

Það mun vera rétt, sem hv. frsm. sagði, að 1. um mannanöfn, frá, 27. júní 1925, hafi ekki komið til framkvæmda að öllu leyti. Það gæti verið nógu fróðlegt að rifja upp, um hvað 1. eru. Þau eru nefnilega um fleira en hv. flm. tók fram. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp l. gr. Hún hljóðar svo:

„Hver maður skal heita íslenzku nafni eða tveim og kenna sig til föður, móður eða kjörföður og jafnan rita nafn og kenningarnafn með sama hætti alla ævi.“ 2. gr. er þannig: „Ættarnafn má enginn taka sér hér eftir.“

Í 3. gr. eru ákvæði um það, að þeir íslenzkir þegnar og niðjar þeirra, sem bera ættarnöfn, sem eru eldri en frá þeim tíma, er 1. nr. 41 10. nóv. 1913 gengu í gildi, megi halda þeim, enda hafi þau ættarnöfn, sem eru yngri en frá aldamótum, verið upp tekin samkv. heimild í lögum, sbr. 9. gr. 1. 41/1913. Sama er samkv. 3. gr. um þá menn erlenda, er til landsins flytjast. Enn fremur er í niðurlagi 3. gr. svo kveðið á, að þeir íslenzkir þegnar og börn þeirra, sem bera ættarnöfn nú (þ. e. við gildistöku l. frá 1925), er upp voru tekin eftir gildistöku 1. 41/1913, megi halda þeim alla ævi.

Samkv. þessu hefur enginn heimild til að taka sér ættarnafn eftir gildistöku 1. 54/1925. Ég vil því spyrja hv. menntmn., hvort þessu ákvæði l., um bann gegn töku nýrra ættarnafna, hafi verið hlýtt eða framfylgt af réttum aðilum. Því að ekki virðist vera síður ástæða til að hafa eftirlit með ættarnöfnum en skírnarnöfnum.

Eitt af því einkennilegasta og sérkennilegasta í háttum þessarar þjóðar er það, hvernig Íslendingar skrifa nöfn sín. Og ég hygg, að mönnum mundi mörgum þykja illa farið, ef þessi siður legðist niður og yrði að þoka fyrir öðrum útlendum hætti. Vitanlega hefur það verið megintilgangur flm. þessara laga að stemma stigu fyrir þessu. Mig langar til að vita, hvort hv. n. hefur athugað þetta atriði.

Viðvíkjandi ónefnum er ég algerlega sammála hv. frsm. menntmn. Það er raun að því, er börn eru skírð ónefnum, og er því full nauðsyn á því, að þeim, sem slík nöfn hafa hlotið, verði gert auðvelt um að losna við þau og taka upp önnur.

Ég man eftir því, að fyrir 3 eða 4 árum fékk ég bréf, þar sem spurt var, hvort viðkomandi prestur hefði leyfi til að neita að skíra barn tilteknu nafni.

Nú er gert ráð fyrir því í 4. gr. 1. frá 1925, að prestar skuli hafa eftirlit með því, að menn beri ekki önnur nöfn en þau, sem eru rétt að lögum íslenzkar tungu. Því hygg ég, að prestar geti haft þetta mjög á sínu valdi um vernd tungunnar að þessu leyti. Og foreldrum er það bæði gott og nauðsynlegt að geta hlítt forystu þeirra í þessu efni.

Mér finnst, að prestarnir ættu að ræða þessi mál sín á milli, t. d. á prestastefnu, til þess að móta sameiginlegt viðhorf sitt til þeirra.

En hitt efast ég um að nái tilgangi sínum. Þótt stjórnarráðið gefi öðru hverju út lista yfir þau nöfn, sem bannað er að skíra, því að með því er vitaskuld ekki unnt að fyrirbyggja, að ný ónefni verði tekin upp. Þá held ég, að betra væri að gefa út, ef hægt væri eða hugsanlegt, tæmandi skrá yfir þau nöfn, sem leyfð eru.

Eins og ég gat um í upphafi, stóð ég ekki sízt upp til þess að spyrja hv. n., hvort hún hefði gert nokkra athugun á því, hvernig ákv. 3. gr. umræddra laga eru framkvæmd. Enn fremur er þá og rétt að spyrjast fyrir um það, hvort hv. n. telji framkvæmd þeirrar gr. ekki eins þýðingarmikið atriði og t. d. 6. gr.