25.03.1941
Sameinað þing: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (3461)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég er ánægður yfir að þessi till. er hér fram komin. Þessi till. er í beinu samræmi við það, sem við þm. Sósíalistafl. og áður Kommúnistafl. höfnun lagt til á undanförnum þingum. M. a. í frv. 1939, þá hljóðaði 6. gr. sérstaklega um það í sambandi við endurreisn atvinnulífsins og nýsköpun í því, að leggja fram hlutafé til byggingar fullkominnar skipasmíðastöðvar og annarra fyrirtækja. Við höfum líka hvað eftir annað lagt til á Alþingi, að ríkið styddi menn hér á landi til að byggja stóra vélbáta, frá 60 til 150 tonn. Þessum till. var aldrei sinnt, hvorki um skipasmíðastöð eða flota af stórum vélbátum. Ég býst hins vegar við því, að fjöldi þm., sem tóku vel undir þessa till., eigi eftir að átta sig á því, að það er betra að láta ekki pólitískt ofstæki ráða gerðum sínum. Það er rétt að athuga till. og standa með þeim, ef þær eru réttar, hvaðan sem þær koma. Ég vil í sambandi við það, sem rætt hefur verið um þessa till., vekja eftirtekt á því, að það eru ekki þeir erfiðleikar, sem viðskmrh. vildi vera láta, sem við eigum í við að koma upp skipasmíðastöð. Það vita allir, hvernig allt gengur á stríðstímum, og það er ekkert fyrirtæki, sem borgar sig eins vel og skipasmíðastöð. Og við þurfum ekki annað en að líta til síðasta stríðs til þess að sjá, hvað við tekur. Við sáum, hvernig fór í Englandi eftir síðasta stríð. Þá gat þeim dottið í hug að rífa niður skipasmíðastöðvar, sem byggt gátu millj. smálesta skipastól á ári. Það er nokkurn veginn gefið, hvernig ástandið mundi verða með sama þjóðskipulagi. Það er gefið, að mönnum fyndist ekki borga sig að byggja skip, þegar fyrsta hrotan er búin, og þá mundu rísa upp sömu vandræðin og eftir síðasta stríð. Það er rétt að vekja eftirtekt á þessum erfiðleikum. Það er það brýni, sem fengið gæti þjóðina til þess að ráðast í það að byggja skipasmíðastöð. Hvað snertir það, sem viðskmrh. sagði, að það kynnu ef til vill að verða óyfirstíganlegir erfiðleikar á að koma upp slíkri skipasmíðastöð, þá gat hann þess, að aðalorsökin fyrir því væri sú, að brezka ríkisstj. mundi ekki ganga inn á að láta yfirfæra þann gjaldeyri, sem þyrfti að fá frjálsan til kaupa í Ameríku. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að ég teldi ekki úr vegi, að hann upplýsti, hvernig sé með vörur, sem við getum selt í Ameríka fyrir frjálsan gjaldeyri, hvort Bretar borga okkur í dollurum fyrir slíkar vörur, þegar þeir með einu eða öðru móti neyða okkur til að láta þær af hendi við sig. Það er nauðsynlegt að koma upp skipasmíðastöð, og Alþingi á heimtingu á að vita, hvernig er háttað um vörur þessar og greiðslur fyrir þær, sem við getum fengið frjálsan gjaldeyri fyrir. Enda er bezt í þessu sambandi að horfast í augu við stað.reyndirnar. Við verðum að fá að vita, hvar við stöndum í þessu máli. Og það væri ekki úr vegi að fá að vita, hvort við fengjum að nota þann frjálsa gjaldeyri, sem aflað er, og ráðstafa honum m. a. í slíkt þarfaþing sem þetta mundi vera.

Það er vitanlegt, að það, sem hér á Íslandi þarf til þessara framkvæmda, er svo smátt á þeirra mælikvarða, að hægt væri að fá hluti úr gömlum stöðvum á Englandi. Það er a. m. k. ekki útilokað. Í sambandi við mál eins og þetta er nauðsynlegt, að Alþ. segi frá því, hverjir erfiðleikarnir séu og hvaða möguleikar séu á að yfir stiga þá. Hvað hitt snertir, að ef til vill yrði ríkið að koma upp slíkri stöð, þá virðist mér það ekki ólíklegt. Ég held, að það sé rétt, að það muni vera einstaklingum ofviða að koma upp slíkri stöð. Líka mætti finna önnur form hlutafélaga eða félagasambanda. Til þess að geta haldið slíka stöð og tryggt starfsemi hennar þyrfti ríkið að hafa nokkurn veginn eignarrétt á henni og það síðan selja báta með skikkanlegu verði til smáútgerðarmanna og annarra útgerðarmanna í landinu. Ef svona skipasmíðastöð væri, í eigu eins hlutafélags og verður eins stór og ég býst við að flm. hugsi sér, Þá mundi fyrir slíkt hlutafélag geta skapazt einokunaraðstaða gagnvart smáútveginum.