25.03.1941
Sameinað þing: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (3462)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

*Finnur Jónason:

Þetta er að sjálfsögðu mikið nauðsynjamál. Það er að vísu ekki nýtt hér á þingi, því eins og þeir vita, sem annars fylgjast með því, sem gerist hér í landinu, hafa á síðustu 2 árum verið byggðir líklega um 20 vélbátar með styrk af ríkisfé, og var þetta vissulega ekki eftir till, kommúnista, sem lagzt hefðu á móti því. Nú er sá munur á, að það er að vísu enn mikil nauðsyn á því, að endurnýjaður verði skipastóllinn og þó einkum það, að ríkið gæti hjálpað til með innflutning á efni og gjaldeyri til greiðslu skipabyggingarkostnaðarins. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir, að nein þörf sé á, að ríkið leggi fram nokkurn styrk til skipabygginga, enda ekki til þess ætlazt af till. manni. Skipasmíðastöð þarf ekki að komast upp til þess að byggja mótorbáta, þó einn hv. ræðum. virtist halda það, þar eð nóg af slíkum stöðvum er til í landinu. Veit ég meðal annars um eina skipasmíðastöð á Ísafirði, sem hefur pantanir í að byggja 5 mótorbáta og mundi vilja byrja á byggingu þeirra nú þegar styrklaust, ef unnt væri að greiða fyrir innfl. og gjaldeyri í því skyni. Hins vegar þyrfti sérstaka skipasmíðastöð, ef byrjað yrði á að byggja stór járnskip. Fyrir mitt leyti vildi ég gjarnan óska, að það mætti takast að koma þessu máli í framkvæmd, því ég er ekki hræddur um það, að neinn þeirra manna, sem nú eru á þingi, mundi fara að rífa slíka skipasmíðastöð niður, Þegar stríðinu linnti. Það er sem sagt um mikið nauðsynjamál að ræða, og tel ég sjálfsagt að vísa þessari till. til þeirrar nefndar, sem starfar að slíkum málum í sameinuðu þingi, sem er allshn.