09.05.1941
Sameinað þing: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (3470)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

*Frsm. (Finnur Jónsson) :

Það situr sízt á mér að vera að hafa á móti því að efla sjávarútveginn. Ég ætla, að ég hafi oft fundið til þess, ekki síður en hv. flm., að nokkuð hefur skort á skilning hæstv. Alþ. á þessu máli. Og sérstaklega urðum við varir við það Alþfl.-menn á sínum tíma, að þegar við höfðum bent á nauðsyn þess að endurnýja togaraflotann fyrir stríð, þá mættu þær till., sem við bárum þá fram hér á hæstv. Alþ., hvorki þeim skilningi eða stuðningi af hálfu flokks þessa hv. flm., Sjálfstfl., sem æskilegt hefði verið, og miklu frekar var það svo, að flokkur þessa þm. lagði stein í götu þessara till. og jafnvel gerði gys að þeim.

Á sínum tíma stóðum við Alþflm. að því, að veittur væri styrkur úr ríkissjóði til þess að smíða mótorbáta innanlands, og bar það talsverðan árangur, á sama tíma, sem Sjálfstfl. vildi hvorki hreyfa legg eða lið í því skyni. (GSv: Er þetta fyrir hönd n.?). Ég ætla, að hv. þm. V.- Sk. heyri, að ég tala fyrir mig sjálfan sérstaklega.

En hvað viðvíkur þeirri till., sem hér liggur fyrir, ætla ég, að hún sýni á engan hátt neinn skort á skilningi allshn. á þörfum sjávarútvegsins. Hins vegar hefur n. tekið tillit til þeirra breyttu ástæðna, sem eru nú orðnar hér um siglingar. Það er vitað, að siglingar við Ameríku hafa lagzt niður langan tíma, þó að þær séu eitthvað byrjaðar aftur, og siglingar til Englands hafa lagzt niður. Og vitanlegt er, að um efni til skipa er ekki að ræða í Englandi. Þjóðin er hvorki megnug að fá þaðan járn eða timbur. Einasta húsið, sem hægt er að venda í fyrir okkur í þessum efnum, er Ameríka. Og eins og hv. flm. þessarar till. lýsir ástandinu um matvælabirgðir hér í landinu, þá mundi sennilega, þrátt fyrir það, þótt samningar lægju fyrir um flutning á timbri, áherzla lögð á það að flytja hingað til landsins matvörur.

Eins og hv. þm. tók fram, þá er það vitanlega styrkari aðstaða fyrir hæstv. ríkisstj., að þm. séu sammála um þá till., sem afgr. verður hér frá Alþ. Það er sýnt, að þm. verða ekki sammála um till. hv. 5. Þm. Reykv. Ef hv. þm. því meinar, að hér eigi að koma fram sterkur þingvilji, þá finnst mér, að hv. þm. ætti heldur að fara fram á það, að allir viðstaddir þm. yrðu með brtt., sem allshn. leggur til að verði gerð við þáltill.