15.05.1941
Efri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (3485)

144. mál, uppgötvanir

*Flm. (Jónas Jónsson) :

Þetta mál þarf ekki langa framsögu, því að það er ýtarlega skýrt í grg., en ég vil aðeins rifja það upp sem sýnishorn um nokkurn veikleika í okkar skipulagi, að þessi uppgötvun, sem hér um ræðir, var gerð 1933 og 1934, en fékkst ekki viðurkennd fyrr en 1940 og 1941, af því að það var komin upp sú venja, að allar ríkisstj. hafa leitað til manna í Danmörku, og þeir dönsku menn gátu ekki skilið þetta strax, en þegar sá maður, sem átti hlut að máli, sendi beiðni um viðurkenningu á uppgötvun sinni til Danmerkur og Englands, þá veitti danska stofnunin leyfið, og litlu síðar var það veitt í Englandi. Núverandi iðnmálaráðh. kippti þessu í lag, þegar leitað var til hans með þetta mál.

Ég hef nú ekki hugsað mér annað í þessum málum en að ríkisstj. reyndi að hafa einhvers konar kostnaðarlitla eða ólaunaða n. þar til hæfra manna sér við hönd til þess að rökstyðja einkaleyfisbeiðnir vegna íslenzkra uppgötvana. Mér finnst óviðunandi, að íslenzka ríkisstj. þurfi að leita til útlendinga að öllu leyti um þessi mál, án þess að einhverjir kunnáttumenn séu til þess hér á landi.

Ég mundi telja það nægilegt, ef þessi þál. yrði til þess; að stj. leitaðist framvegis við — bæði þessi stj. og þær, sem síðar koma, — að hafa nokkurt ráðleggjandi aðhald sinna manna, svo að hún yrði ekki eins háð útlendum dómum og verið hefur fram að þessu og eins og þetta dæmi sýnir.