15.05.1941
Efri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (3487)

144. mál, uppgötvanir

*Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég er þakklátur, að hv. 1. þm. Reykv. er mér samdóma, að þessi till. er eðlileg, að að því leyti sem uppgötvanir koma til greina hér, þá þurfi að fá því svarað á einhvern hátt með stuðningi yfirvalda. Ég sé, að hv. þm. er enn fremur samdóma um það, að eðlilegt sé, að ekki verði margra ára dráttur á þessu. Og þótt hann tæki það ekki fram, þykist ég vita, að hann sé samdóma um, að Íslendingar séu ekki í þessu efni algerlega háðir því, sem í öðrum löndum gerist. Hitt, sem hann minntist á, um einkaleyfi í eðli sínu, þá er það alheimsmál, sem hvorki hann né ég get ráðið við. En í þessu skjali, sem ég hef látið prenta með frv., gerir húsameistari grein fyrir því, að hann hafi með þessari aðferð sinni húðað háskólann, mig minnir fyrir eitthvað 3/5 af því, sem það kostaði almennt hjá öðrum. Og það er líka nokkurn veginn gefið, að enginn maður, sem fær einkaleyfi, óskar eftir að fara svo ógætilega að, að enginn vilji nota uppgötvunina. En aðalatriði í heimspeki hv. þm. snýr að þessu veraldarproblemi um einkaleyfi út af fyrir sig. En ég hygg, að við séum báðir samdóma um, að það sé nokkurn veginn útilokað, að þessi maður misnoti þetta leyfi, heldur muni hann þvert á móti hafa áhuga á að gera þessa aðferð ódýrari.