15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (3498)

153. mál, frestun alþingiskosninga

Finnur Jónsson:

Ég ætla að svara tveimur þingmönnum Sósíalistafl., sem hér töluðu áðan. — Viðvíkjandi orðum hv. 5. þm. Reykv. um Alþfl., þá klofnaði hann fyrir alllöngu, ekki af innanlandsástæðum, heldur af öðru. — Hann klofnaði vegna afstöðunnar til Rússa, ekki afstöðu okkar til Rússa, heldur hvaða rétt Rússar hefðu til að brjótast inn í eitt af Norðurlöndunum, sem fyrir utan Ísland er mesti lítilmagninn.

Þessi hv. þm. benti svo á, að íslenzkum málstað sé bezt borgið hjá þeim flokki, sem lítur með velþóknun á innrás Rússa í Finnland. Ég ætla ekki að segja meira við þennan hv. þm., ég ætla að víkja nokkrum orðum til hv. 1. landsk. — Hann sagðist ekki vilja drótta neinu að ríkisstj., en áður sagði hann, að blað hans flokks hefði verið bannað, líklega fengju menn ekki að tala í útvarp, ef kosningar færu fram, og ekki líklegt, að hans flokkur fengi að halda fundi. — Ég veit ekki, hvað aðdróttanir eru, ef ekki það að segja, að íslenzka ríkisstj. hafi fengið herstjórnina til að banna blað eins flokksins o. s. frv.

Það getur verið, að sú gamla rússneska einræðishugsun, sem þessi hv. þm. er vaxinn upp við og er honum svo samvaxinn, að hann kalli þetta ekki aðdróttanir, en allir hv. þingmenn kalla þetta aðdróttanir, nema þeir flokksbræður hans.

Þessi hv. þm. lýsti átakanlega þessu ástandi, sem hér er í landinu, á þennan hátt, en sagði svo, að aðrir þingflokkar mundu ekki þora að ganga til kosninga, vegna þess að hans flokkur mundi ganga sigrandi frá kosningum í vor. — Hingað til hefur það verið skoðað sem aðatatriði í kosningum, að það ríkti málfrelsi, ritfrelsi og fundarfrelsi, en þegar búið sé að afnema þetta, þá lýsir hv. 1. landsk. yfir því, að hans flokkur mundi ganga sterkari út úr kosningunum. Býst þessi hv. þm. við því, ef hann hefði ritfrelsi og málfrelsi, að það mundi skaða hans flokk, en ef hann væri sviptur því, að það mundi verða til góðs.

Nú segi ég, að þessi hv. þm., sem hefur lifað hér í landi í mörg ár á fé, sem hans flokkur hefur fengið erlendis frá til að vinna erlendum málstað frama, að það kemur úr hörðustu átt, þegar hann er að hrósa sér af umhyggju fyrir íslenzkum málstað og lýðræði, þegar hann undanfarið ár hefur prédikað í blaði sínu, að ekki bæri einungis að afnema íslenzkt lýðræði. heldur lýðræði í öllum heiminum.

Ég get gefið þá yfirlýsingu, í sambandi við þessa till. til þál., sem hér liggur fyrir, að ég álít það neyðarúrræði að fresta kosningum, og ég hef maldað í móinn innan míns flokks, en eftir því, sem sakir standa, hef ég orðið að fallast á þau rök, sem eru fyrir frestuninni, — það er ekki forsvaranlegt, að vera því mótfallinn. Ég er þeirrar skoðunar, þrátt fyrir ræðu hv. 1. landsk. og þá yfirlýsingu hans, að ef þessi till. yrði samþ., þá viðurkenndi hans flokkur enga löglega stjórn eða löglega þingmenn, þá mundi það aðeins hafa það í för með sér, að við misstum þessa ágætu meðþingmenn eftir þ. 29. júní. Þegar boðað verður til þings eftir þann tíma.

Ég fæ ekki skilið, að þeir þm., sem þannig líta á, að ef till. yrði samþ., þá væri engin lögleg stjórn né yfirleitt neitt löglegt í landinu, að þeir geti brotið í bág við sannfæringu sína með því að mæta á Alþingi eftir það.

Ég get eftir atvikum fylgt þessari till, til þál., af því að hér er um nauðsyn að ræða, og ég er þess fullviss, að engar verulegar breyt. yrðu á Alþingi, þó að kosið yrði. Þrátt fyrir það, þótt mönnum sýnist sitt hvað um framkvæmdir þjóðstj., þá viðurkenna allir, nema þessir þrír þm. Sósíalistafl., að á þessum tímum, sem nú eru, þá verði menn að láta allar væringar niður falla og taka höndum saman um að bjarga þjóðinni eins mikið og föng eru á fyrir okkur, sem erum litlir og lítils megnugir í þeim hildarleik, sem nú geisar.