15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (3503)

153. mál, frestun alþingiskosninga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði áðan og var að hafa eftir mér, þá vona ég, að þingskrifarar hafi tekið rétt eftir því, sem ég sagði, svo að það sé alveg nauðsynjalaust að leiðrétta það, þannig að í því, sem bókað verður, komi fram mín orð, en ekki orð þau, sem þessi hv. þm. hafði eftir mér. Svo ekki meira um það.

Viðvíkjandi því, sem fram kom hjá einum hv. þm., ég held hv. þm. Ísaf., að það mundi ekki sæma fyrir þm. Sósíalistafl. að mæta á þingi, sem þeir telja í alla staði ólöglegt, þá vil ég lýsa yfir því enn þá einu sinni, að Sósíalistafl. mun líta á það þing, sem haldið verður eftir 29/6 1941 og skipað sömu þm., sem nú sitja, algerlega ólöglegt og alla þm. sitjandi þar á eigin ábyrgð án umboðs frá þjóðinni, og gildir það jafnt þm. Sósíalistafl. eins og annarra flokka. Hins vegar munu þm. Sósíalistafl. samt sem áður mæta á slíku þingi, eða réttara sagt á slíkri samkundu, á sama hátt eins og þeir hafa starfað í félögum Alþfl. og komið þar á fundi, enda þótt lög hans hafi verið afnumin og að engu höfð fyrir löngu. Þeir munu mæta til þess að bera fram málstað þess fl. og þeirra kjósenda, sem þeir nú eru fulltrúar fyrir, og eins til þess að minna hv. þm. á, að allt, sem þeir gera, er lögleysa ein, sem ég held, að þm. hafi gott af að vera minntir á stöku sinnum.