16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (3516)

154. mál, sjálfstæðismálið

Pétur Ottesen:

Ég get ekki látið hjá líða, áður en gengið er til atkv. um þessar þáltill. um sjálfstæðismálið og stjórnskipulag Íslands, að láta í ljós, að mér þykir engan veginn svo skýrt eða skilmerkilega að orði kveðið í þáltill. þessum sem vera ætti og raunar sjálfsagt er um það, hvað skeð hafi að því er Ísland snertir og afstöðu þess gagnvart fyrrverandi sambandsríki sínu, Danmörku. Ég lít svo á, að með því að Danmörk hefur eigi getað fullnægt af sinni hálfu sambandslagasáttmálanum, þá beri Alþingi að lýsa skýrt og skorinort, án allra óþarfa málalenginga, yfir því, að það líti svo á, að sáttmálinn sé úr gildi fallinn og konungssambandið milli landanna sé að fullu rofið. Það er rás viðburðanna, það er lífið sjálft, sem hefur að efni og formi gengið að fullu frá þessum sambandsslitum. Þegar svo er komið, er það vitanlega á valdi Alþingis eins að ákveða um það, hvenær og með hvaða hætti skuli ganga frá endanlegri stjórnskipun landsins. Ég tel það eðlilegast, að það hefði verið gert með þeim hætti, að Alþingi hefði kvatt til þjóðfundar, er gerði nýja skipun á stjórnarháttum ríkisins, sem ég tel sjálfsagt, að byggð yrði upp á lýðræðisgrundvelli. Ég hefði talið æskilegast, að til þjóðfundar hefði verið kvatt á þessu sumri og eigi frestað að ganga frá endanlegri stjórnskipun ríkisins, en ég viðurkenni hins vegar fúslega, að þeir atburðir hafi gerzt, að um kosningar til þjóðfundar á þessu sumri geti ekki verið að ræða. Við verðum því að þessu leyti að sitja við það bráðabirgðaástand, sem nú er, um hríð. Ég hefði sem sagt talið æskilegast, að þannig hefði verið gengið frá þessum þáltill., og hef reynt að hafa áhrif á það, að yfirlýsing um þetta efni yrði orðuð í þeim anda, sem ég nú hef lýst. En þar sem grundvallarhugsun sú, sem felst í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, gengur í rétta átt, það sem hún nær, þá mun ég samt greiða henni atkv. mitt.

Um þáltill. um stjórnskipulag Íslands og æðsta vald í málefnum ríkisins vil ég segja það, að ég tel, að á meðan við búum við bráðabirgðaástand í þessu efni, þá getum við vel hlítt því ástandi eða þeirri skipun þessara mála, sem við nú búum við, og þess vegna sé ekki ástæða til að vera að bæta hér nýjum lið inn í þetta bráðabirgðaástand, sem ég get ekki komið auga á, að hafi neina raunverulega þýðingu fyrir öryggi eða afkomu íslenzka ríkisins. Þess vegna mun ég greiða atkv. á móti þessum till.