16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (3517)

154. mál, sjálfstæðismálið

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að samkomulag hefur orðið um það, að hæstv. ríkisstj. flytti þær till., sem hér hafa komið fram, því ef litið er nokkra mánuði aftur, þá má varla búast við því, að þær hefðu orðið á þann hátt, sem hér greinir. En það eru nokkur atriði, sem ég vil gera athugasemdir við í sambandi við þetta.

Ég er á sömu skoðun og hv. þm. Borgf. um það, að æskilegast hefði verið og átt hefði að lýsa greinilega yfir því, að sambandinu væri að fullu slitið og Íslandi breytt í lýðveldi, og farið að því á þann hátt, að þjóðaratkvgr. og kosningar hefðu farið fram. Því er nú ekki að heilsa, að það sé hægt, — aftur á móti held ég, að hægt sé að taka greinilegar fram um þessi atriði en gert er í till., og ætla ég því að leyfa mér að koma með brtt., sem ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp og skýra frá. Við fyrstu till., um sjálfstæðismálið, vil ég leggja til, að á eftir orðinu „Danmörku“ komi: og sé sambandinu að fullu slitið, — og haldi áfram síðar, þar sem segir, að ekki þyki að svo stöddu tímabært að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka, og í stað orðanna „frá formlegum“ komi: formlega frá. — Með því væri ákveðið, að hér væri í raun og veru um sambandsslit að ræða, en það, sem eftir væri að ganga frá, það væru formsatriði, eins og viðvíkjandi þegnrétti Íslendinga og Dana og annað því um líkt. Ég álít það nokkuð mikið atriði eins og nú horfir við, að það komi greinilega í ljós, að þetta séu sambandsslit, eins og í raun og veru á að verða.

Í sambandi við þetta vil ég líka koma með brtt. við 3. till., að hún orðist á þessa leið : ,.Alþingi ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði formlega stofnað á Íslandi, jafnskjótt og gengið verður frá endanlegri stjórnskipun ríkisins“. Þar er ekki vísað til neinna sambandsslita, því þá væri áður búið að gefa yfirlýsingu um, að þau væru fyrir hendi, — það sem raunverulega er nú, að Ísland sé lýðveldi. Eftir henni er því að sjálfsögðu þingbundin konungsstjórn, en eftir þeim till., sem hér koma fram, þá verður það ríkisstjóri, sem fer með æðsta vald í málefnum ríkisins og kosinn er til eins árs í senn. Ég vil þó lýsa yfir því, að þó þessar till. mínar yrðu felldar, þá mun ég greiða þessum till., eins og þær koma frá ríkisstj., mitt atkv., því ég álít, að samþykkt þessara till. væri mikil bót, því þær sýna vilja þingsins miklu ótvíræðar en kemur fram í þessum yfirlýsingum, sem ekki er hægt að gera í atkvgr. með kosningum.