16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3523)

154. mál, sjálfstæðismálið

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er að sjálfsögðu mikill viðburður, þegar mesta mál þjóðarinnar er til umræðu og ályktunar á Alþingi, og svo hefur alltaf verið hingað til.

Enda þótt þær ályktanir, sem áður hafa verið gerðar á þessum vettvangi um sjálfstæðismálið eða sambandsmálið, hafi fram að þessu þótt meira sem áfangar á leiðinni heldur en fullnaðarúrslitin, þá hafa þær þó verið hinar mikilvægustu. Má og til sanns vegar færa, að vandi fylgir vegsemd hverri, þegar við sjálfir finnum og þjóðin veit, að Íslendingar — Alþingi og ríkisstj. — hafa tekið í sínar hendur öll landsins mál, hin æðstu sem önnur, og þau, sem farið var með af öðrum erlendis. Þetta hefur gerzt nú fyrir rúmu ári síðan, og atvikin höguðu því svo þá, að Íslendingar urðu og vildu taka öll sín mál í eigin hendur. Gildi þessarar ákvörðunar hefur ekki verið vefengt, og það er líka ótvírætt. En sú vegsemd, sem því hefur fylgt, skyldar að sjálfsögðu til eins og annars. Í fyrsta lagi til þess, að Alþingi og ríkisstj. og þjóðin öll viti, hvað hún er að fara. Og í öðru lagi til þess að haga gerðum sínum og orðum þannig, að ekki beri út af þeim rétta vegi. Vandinn er sá að fara brautina beina, án þess þó að ana áfram, svo að fataldi verði. — Á þeirri leið, sem við nú höfum gengið frá því í fyrra, á þeim tímum, sem ógurlegastir eru í sögu þjóðanna. hefur verið margt spor stigið, sem hefði þurft að hugsa sig vandlega um, og einnig hefur verið reynt að gera það. En vandinn er þó mestur sá, að missa ekki það, sem við teljum dýrmætast og höfum höndum tekið. En ástæðurnar eru ekki þannig, að við getum að öllu leyti hrósað því happi, að við höldum alls kostar heilu því, sem við höfum tekið og eigum. En við höldum því þó svo heilu, að í vitund þjóðarinnar er það hið sama, — fjöreggið er óbrotið. Og því verðum við að halda óbrotnu gegnum allar raunir, sem ef til vill og sjálfsagt steðja að enn þá, og ef til vill miklu fremur hér eftir en hingað til. Hvernig það tekst, getum við að vísu ekki sagt um nú til fulls. En ef við erum allir af vilja gerðir, þá má það sín mikils og líklega mests.

Saga sjálfstæðismáls Íslendinga skal ekki rakin hér. Hún hefur oftlega verið sögð af mér og öðrum, þó að við verðum að viðurkenna, að nú á síðari tímum hafi nokkuð hilmað yfir sumt af því, sem ávallt átti að vera opið, og að yngsta kynslóðin hafi ekki upp á síðkastið haft nógu ljósa hugmynd um það, sem gerzt hefur um þetta mál fyrr og fram að síðari tímum, né heldur hafi það innræti, sem þeir menn höfðu, sem lifðu og hrærðust í baráttunni og kunna að meta þau skref, sem stigin voru í þeirri baráttu, og vissu, hvað unnið var og hvað eftir var. Ávallt hefur það svo verið, að Íslendingar hafa viljað verða frjáls þjóð, sjálfstæð þjóð, fullvalda ríki.

Einn hinn meiri áfangi málsins var vissulega á enda farinn 1918. Þá fengu Íslendingar það, sem þeir þá kröfðust. Og það var spor ótvírætt í rétta átt, sem þá var stigið að fullu, í ljósri vitund um það, að Íslendingar voru að öðlast viðurkenningu á sínum fyllsta rétti. Þá var fullveldi landsins viðurkennt af sambandsþjóðinni, sem við áttum í höggi við og hafði aldrei til þess tíma viljað viðurkenna fullan rétt Íslands.

Sambandslagasamninginn 1918 ber því sízt að telja neitt hrak, öðru nær. Hann var í sannleika fullréttissamningur. Ég og þeir aðrir, sem sitjum nú á þingi og sátum hér þá, greiddum honum atkvæði okkar fúsir og glaðir, og getum við þó óhikað talið okkur skilnaðarmenn, þ. e. fylgjendur þeirrar stefnu, að Íslendingar skuli taka öll sín mál í eigin hendur og stjórna þeim sjálfir. Það höfum við nú gert. Og nú líður að lokatímanum. Á þessu þingi hefur staðið til, að tekin væri ákvörðun, sem sannaði það, að Íslendingar hefðu í rauninni tekið öll sín mál í eigin hendur og ætluðu að halda þeim.

Það er rétt hjá hv. þm. S.-Þ., að ég ritaði hæstv. ríkisstj. á síðasta sumri og lagði til, að sérstakur undirbúningur að málinu yrði viðhafður: Ég sakast ekki um, þó að hún treystist ekki til þess, eins og þá stóðu sakir, því að viðurkenna verður, að allar aðstæður hafa breytzt stórlega, ef til vill ekki frá degi til dags, en að minnsta kosti frá viku til viku. Það hefur smám saman orðið berara, hvað akkur var skylt að gera. Enginn er alvitur, og enginn getur hrósað sér af því að hafa fundið fyrirfram hina beztu leið. En þó að ályktun sú, sem hér liggur fyrir í þrennu lagi, væri ekki gerð á öndverðu þessu þingi, sem ég og fleiri ætluðumst reyndar til, þá verður hún nú fullkomnuð hér í kvöld.

Menn hafa sagt, að orðalag till. á þskj. 547 (um sjálfstæðismálið) væri ekki til hlítar skeleggt. Má að vísu segja, að orðalagið sé nokkuð háð því hvoru tveggja, hvernig valdið er komið í okkar hendur, og eins hinu, hvernig framkvæmdin hlýtur að verða um sinn. En það þýðir ekki, að efni málsins sé ekki gott og rétt. Um þessar till. gildir hið sama og um aðrar ályktanir. Merking ályktana Alþingis er sú, sem Alþingi leggur í þær, ef orðalagið mótmælir því ekki. Þá er spurningin : Hver er merking þessara tillagna? Frá því sjónarmiði, sem ég hef talið mitt, er merking tillagnanna fullur skilnaður, og skal því slegið föstu, enda, þótt framkvæmdin sjálf dragist nokkuð af óviðráðanlegum ástæðum.

Það kann að vera rétt, að þessar tillögur hiti ekki alþjóð og komi ekki fólkinu til að fljúga. En þess ber að gæta, að þjóðin er orðin allvön umræðum um þetta mál. Hiti er mestur í málum, meðan barizt er um þau, en hiti er ekki eins nauðsynlegur, þegar ráða skal málum til lykta á skynsamlegan hátt, og oft þarf sérstaklega skynsemi við, þegar um er að ræða að haga rétt orðalagi, sem mikið veltur á, svo sem hér, að ekki verði á haft. Svo getur farið, að barnið detti einmitt í þann brunninn, sem byrgja átti, ef ekki er næg gætni við höfð, einnig um orðalag. Nú er ég að vísu þeirrar skoðunar, að orða mætti betur tillöguna á þskj. 547, — að segja mætti með meiri áherzlu það, sem þar er sagt. En efni málsins yrði þó nákvæmlega hið sama.

Ég mun því með, þeirri skilgreining, er ég nú hef gert, greiða till. á þskj. 547 atkvæði mitt, fullum rómi og fúslega. Sömuleiðis tillögunni á þskj. 548 (um ríkisstjóra), þar sem ég tel, að hún fari fram á það, sem er bein afleiðing till. á þskj. 547, að til sé maður, einn maður, sem fari með æðsta vald með þjóðinni, svo sem einnig aðrar þjóðir hafa jafnan talið, að vera þyrfti. Og loks till. á þskj. 549 (lýðveldið), sem setur í rauninni smiðshöggið á allt saman. Till. á þskj. 548 segir, að ríkisstjóri skuli hafa hið æðsta vald, en till. á þskj. 549, að vilji Alþingis sé sá, að lýðveldi sé stofnað á Íslandi undireins og ástæður til þess eru fyrir hendi, því að réttur til þess er nú á okkar valdi.

Samkvæmt því, sem ég hef nú rakið, tel ég til1. þær til þál., sem hér hefur verið lýst, þýða þetta:

1. Sambandinu við Danmörku er raunverulega slitið.

2. Ekki verður samið um nýtt samband við Danmörku.

3. Gengið verður frá frambúðar stjórnskipun hins íslenzka fullvalda ríkis þegar er tök verða á vegna styrjaldarinnar.

4. Þangað til það verður, gegnir ríkisstjóri, kjörinn af Alþingi, æðsta valdi í landinu.

5. Stjórnskipun Íslands verður lýðveldi:

Með þessum formála greiði ég atkvæði með málinu í heild, án nokkurra breytinga, eins og það er lagt fyrir hið háa Alþingi.