16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (3525)

154. mál, sjálfstæðismálið

*Sigurður Kristjánsson:

Það fyrsta, sem ég man eftir að hafa heyrt talað um landsmál, það var um deiluna við Dani um sjálfstæði Íslands. Og þá strax og lengi fram eftir árum vissi ég ekki til, að nokkurt mál af þjóðmálum Íslands væri talið þess vert, að á það væri minnzt jafnhliða því máli. Svo langt var þetta mál tekið fram yfir öll önnur mál. Og það er ekki undarlegt um mál, sem hefur verið barizt fyrir af fleiri kynslóðum, þó að það sé orðið og væri orðið mikið hjartans mál fyrir íslenzku þjóðina. Það er ekki nokkur minnsti vafi á því, að þetta mál verðskuldaði þessa baráttu og þann hita, sem því fylgdi. Það hefur sannazt á því, að í hvert skipti sem Íslendingum hefur auðnazt að fá að stíga skref í sjálfstæðisáttina, þá hefur hagur þeirra batnað og blómgazt stórkostlega. Þjóðin hafði öðlazt þá réttu trú á það, að hamingja hennar væri í bráð og framtíð komin undir sem fyllstu sjálfstæði. Og ég er alveg sannfærður um það, að fjöldi Íslendinga hefði fúslega fórnað lífi sínu til þess að geta höndlað það fyrir afkomendur sína, að Ísland fengi fullt sjálfstæði. Málið er áreiðanlega þess virði.

En svo undarlega bregður þá við, að þegar þetta nú liggur við fætur okkar, þá er eins og flestum finnist fátt um. Og það, sem mest ber nú á í umr. um sjálfstæðismálið, það eru afsakanir, — það er verið að reyna að finna afsakanir fyrir því að taka ekki þann dýra grip upp eða a. m. k. að slá því á frest. Og einmitt þetta kom fram, þegar þetta hæstv. Alþ., sem nú situr, kom saman. Það hefði mátt vænta þess, að sambandsmálið hefði orðið fyrsta málið, sem fyrir yrði tekið hér á hæstv. Alþ., og að öll önnur mál hefðu verið látin víkja, meðan komizt yrði að fullri niðurstöðu um það, hvað gera skyldi í þessu máli. Það er alveg óeðlilegt, að það skuli hafa svo að segja ríkt þögn um þetta mál innan (þings, því að ég kalla, að svo sé, þó að það hafi verið lauslega rætt tvisvar eða þrisvar kannske á þremur mánuðum innan flokksfunda.

Nú er það víst, að ef á þessu máli hefði verið tekið eins og það verðskuldaði og komizt að niðurstöðu í því, áður en öðrum málum var til lykta ráðið, þá hefði afleiðingin orðið sú, að við hefðum lýst yfir því, sem við nú lýsum yfir, þótt með daufu orðalagi sé, að Ísland hefði öðlazt rétt til þess að slíta sambandinu við Danmörku. Og sennilega hefði þá einnig verið lýst yfir því, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur hér lagt til í skrifl. Brtt., að sambandinu væri slitið. Af því hefði aftur óhjákvæmilega leitt það, að við hefðum orðið að viðurkenna þörfina og nauðsynina á því að byggja upp nýtt stjórnskipulag með nýjum stjórnarl. Þetta hefði verið sá eðlilegi gangur, málsins frá mínu sjónarmiði, að hæstv. Alþ. hefði gengið frá þessu máli svo fljótt sem unnt var og fyrr en öllum öðrum málum og síðan nýrri stjórnarskipun með nýjum stjórnarl. og þar af leiðandi í raun og veru gengið til nýrra kosninga til þess að fá endanlega samþ. á þeim nýju stjórnarlögum:

Nú erum við minntir á það, að Alþ. sé nýbúið að samþ., að engar kosningar skuli fram fara í sumar, og fyrir því hafa verið færðar mjög gildar ástæður. Ég er sannfærður um, að það er ekki sambærilegt að fresta kosningum, þegar ekki knúði önnur nauðsyn en sú að fylgja því formi að kjósa 4. hvert ár, — það er ekki sambærilegt við þær ástæður, ef við hefðum haft skörungsskap til þess að byggja upp stjórnarskipun, sem ókomnar kynslóðir eiga að búa við. Ég geri a. m. k. fastlega ráð fyrir því, að ekki hefði þótt fært að fresta kosningum, ef slíkt mál hefði legið fyrir, þó að það þyki fært eins og nú standa sakir. Nú má segja, að ég sé hér að sakast um orðinn hlut. En það er ekki tími til að segja þetta síðar, ef það er ekki sagt nú. Og málið er ekki svo ómerkilegt, að það beri að láta þetta ósagt. En það, sem liggur fyrir, er vitanlega það að gera hér ályktanir, sem ið ekki þurfum að iðrast eftir eftir á, ályktanir, sem hæfa þessu máli fullkomlega og ekki loka fyrir okkur neinum dyrum.

Ég get fullkomlega tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, að mér mislíkar það stórlega, hvernig þessi fundur er undirbúinn. Ég get ekki séð, að það sé í neinu samræmi við verðleika þessa máls að kasta í mann hér dagskrá eftir að fundur er kominn saman og ætla sér að hespa þessi þrjú mál, sem á dagskránni eru, af í einum kvöldfundi. Ég sé ekki betur en að þessu máli hæfi það fullkomlega, að það sé rætt gaumgæfilega. Og það er þegar í ljós komið, sem reyndar vita mátti, að menn eru ekki sammála hér um orðalag þessara þáltill., sem hér liggja fyrir. Það er vitanlega ekki undarlegt, þó að menn séu ekki sammála um orðalagið, jafnvel þó að menn séu sammála um kjarna málsins. Og ég sé ekki, hvað það getur spillt fyrir Þessu máli, þó að menn leitist við að finna þá afgr. á því, sem hæfir bezt og öruggust er. Það er nú svo merkilegt, að þó að því hafi verið lýst yfir, og það með réttu, að þetta mál hafi verið rætt á fundum flokkanna, þá kemur hér í fyrstu þáltill. orðalag, sem ég hef aldrei fyrr séð í niðurlagi þáltill. stendur hér, sem ég skal með leyfi hæstv. forseta lesa upp, í síðari málsgr.:

„Að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum við Danmörku, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins, enda verði því ekki frestað lengur en til styrjaldarloka“.

Við vorum hér síðastl. dag að samþ. frestun kosninga, sem þó skyldi aldrei verða lengur frestað en um fjögurra ára bil. Við vitum nú ekki, hvað þessi styrjöld muni standa lengi. En þessu máli, sem hér liggur fyrir, þykir ekki liggja meira á en það, að þó að þetta verði 30 ára stríð, þá er markið ekki sett nær en það, að það megi dragast til styrjaldarloka, að málið verði leyst. Það þykir fært að hafa frestinn lengri um fullnaðarlausn þessa máls heldur en við sáum okkur fært að hafa hann, þegar um nýjar kosningar er að ræða, og þykir mér þetta óviðeigandi, af því að mér þykir þetta merkara mál heldur en hitt, um að kjósa á fjögurra ára fresti.

Ég vil nú ekki hika við það, úr því að á annað borð var haft svo mikið við þetta mál að hafi um það umr., að láta í ljós mína skoðun og minn vilja á því, hvernig þessi þáltill. ætti að vera. Hv. 3. þm. Reykv. hefur borið fram brtt. við 1. málsgr., að á eftir orðinu „Danmörku“ komi: og sé sambandinu að fullu slitið.

Það vantar sem sé í þessa þáltill., að því sé lýst yfir, að Íslendingar telji, að sambandinu við Danmörku sé að fullu slitið. Hér er aðeins sagt, að Alþ. telji, að Ísland hafi öðlazt rétt til fullra sambandsslita við Danmörku. Það vantar bara það, sem við á éta, hvort Ísland vilji gefa þessa yfirlýsingu. Langhreinlegast væri að byrja þessa ályktun á því, eins og hv. 3. þm. Reykv. vill, að lýst sé yfir, að sambandinu sé slitið. Þá munu menn segja, að afleiðingin af því sé sú, að það verði þá að byggja eitthvað upp í staðinn. Og það er vitanlegt, að það er hlutur, sem Alþ. verður að gera. En af hverju má ekki ákveða það í öðrum eða nýjum þriðja lið þessarar þáltill., að það skuli gert ekki síðar en fært þykir að láta almennar kosningar til Alþ. fara fram?

Ég hef hugsað mér að segja hér nokkur orð síðar um aðra liði dagskrárinnar, en ég kann ekki við að blanda dagskrárliðunum saman. Mér finnst hver þeirra um sig vera þess verður, að umr. um þá, hvern fyrir sig, sé haldið alveg sérstökum. Ég ætla að leyfa mér að koma með skrifl. brtt. um þá dagskrárliði. En ég legg til, að þessu máli verði frestað og það tekið af dagskrá.