16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3531)

154. mál, sjálfstæðismálið

Ísleifur Högnason:

Herra forseti! Enda þótt okkur sósíalistum bærust ekki till. ríkisstj. fyrr en mjög seint og við hefðum kosið, að orðalag till. á þskj. 547 um sjálfstæðismálið, og e. t. v. einnig till. á þskj. 549 um stjórnskipulag Íslands, væri nokkuð annað en er, höfum við ákveðið að greiða þeim atkvæði. Um þriðju till. er aftur á móti það að segja, að eins og hún er lögð fram, treysti a. m. k. ég mér ekki til að greiða um hana atkvæði. Það er fyrst varhugavert, að við vitum ekki, hvort með henni á að skápa fordæmi um val á æðsta embættismanni ríkisins í framtíðinni. Ég veit ekki, hvort átt hefur að skilja ummæli hæstv. forsrh. þannig, að svo væri. Ég er ekki við því búinn né við sósíalistar að taka á 1–2 klst. ákveðna afstöðu gagnvar t svo þýðingarmiklu atriði, sem svo óljóst er fram sett. Ég legg áherzlu á, að enn er ekki upplýst, hvort þessi skipun um ríkisstjórann sé framtíðarfordæmi eða aðeins til bráðabirgða, — auk þess er allt á huldu um það, hverjir eigi uppástungurétt um forsetaefni, þingflokkar eða aðrir aðilar, hvort hann skuli skyldur til að taka við kosningu o. s. frv. Slíka tilhögun er ekki einu sinni hægt að ræða, eins og málið er fyrir lagt, hvað þá greiða atkvæði um þetta.