16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (3532)

154. mál, sjálfstæðismálið

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Það kemur berlega í ljós, sem raunar er ekki óeðlilegt, að þessar till. eru nokkuð misjafnlega séðar, eftir því frá hvaða sjónarmiði menn líta á þær. Ég held, að flestum þyki þær ganga of skammt, öðrum, að þær séu ekki nógu skýrar, og fleira er til fundið. Mér virðist hér vera reynt að hræða saman hinar sundurleitu skoðanir og býst við, að ekki sé auðvelt að gera það betur. Ég vona, að öruggt sé, að allur réttur okkar sé geymdur óskertur, ef þessar till. ná samþykki. Hv. þm. V.-Sk. minntist í hinni ágætu ræðu sinni á samninginn frá 1918 og almenna ánægju þjóðarinnar með hann. Ég veit, að hann fer þar með rétt mál, og ég tel, að það, sem náðist þá, hafi án efa verið mesti sigur okkar í sjálfstæðismálinu. Réttur þessarar þjóðar til að lifa sjálfstæðu lífi verður síðan ekki véfengdur. Það hafa komið fram raddir um, að hvorki hafi verið tekið skörulega né af framsýni á sjálfstæðismálinu. Þar er ég á þveröfugu máli. — Nú hef ég að vísu haft tilhneiging til að fara gætilega, varast hvort tveggja jafnt, að ganga á gerða samninga og að fleygja frá okkur rétti. Út frá því mundu ýmsir ætla, að mér þætti fullsterkt að orði kveðið í upphafi till, á þskj. 547. En ég skal viðurkenna, að síðan hreyfing komst á málið um s. l. nýár, hafa gerzt ýmsir þeir hlutir, að mér þykir rétt að kveða nú nokkru sterkar að orði en þá var ástæða til.

Hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. Ísaf. hafa talað nokkuð á sinn veg hvor um nú uppistandandi danska stjórnmálamenn og borið þeim ólíkt söguna. Ég hef ekki fengið neina nána kynning við þá menn né aðra í dönsku stjórnmálalífi, einungis veitt því athygli, hvernig þeir hafa komið fram í ræðu og riti, og reynt hef ég að meta að réttu afstöðu Dana sem sambandsþjóðar í okkar garð, síðan samningurinn frá 1918 gekk í gildi og þeir viðurkenndu rétt okkar til fullveldis. Og ég tel, að framkoma þeirra hafi verið þannig, að við höfum sízt ástæðu til að kvarta undan henni.

1918 var gengið út frá því, að þetta ár, 1941, yrði svo endanlega hafinn undirbúningur að lausn þessa máls á þann veg, að þá yrðu Íslendingar að taka endanlega ákvörðun um það, hvort þeir vildu vera áfram í sambandi við Dani eða ekki. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það skipti verulegu máli fyrir Íslendinga, eða þjóðin hafi verið í vafa um, hver yrðu lok þessa máls.

Ég geri líka ráð fyrir, að allur fjöldi manna á þessu landi hafi litið svo á, að þetta stjórnmálasamband ætti að rofna og slitna eftir ákvæði þessa sáttmála, sem ég minntist á, þegar fylling tímans væri komin. En hitt var mér orðið ljóst hin síðari ár, eins og mörgum öðrum Íslendingum, að um þetta mál mundi tæplega verða hiti hér á landi. Sambúð þjóðanna var komin í þann farveg, að það var ekki eðlilegt og þess var ekki að vænta, að mál þetta yrði af okkur leyst með dunum og dynkjum. Munu flestir hafa búizt við, að frá þessum málum yrði gengið eins og hverjum öðrum sjálfsögðum hlut, meðal annars vegna þess óhugs, sem var í okkar þjóð við tilhugsunina um að eiga að búa við erlend yfirráð um aldur og ævi, jafnvel hvað sambandið við Dani snertir, þó að ef til vill sé ekki rétt að kalla Það yfirráð. Nei, það liggur í hlutarins eðli, hvort sem yrði hlutskipti fólksins, sem á Íslandi býr 1941 eða síðar, að velja leiðina í lausn sjálfstæðismálsins, þá hlaut hún að verða byggð á sama grundvelli. En viðburðanna rás hefur nú orðið önnur heldur en sennilega nokkurn mann dreymdi um 1918. Eins og mikið hefur verið talað um á undanförnum þingfundum, þá brýtur nauðsyn lög, og við höfum orðið að grípa til Þeirra úrræða, sem atvikin hafa borið að okkur.

Með þessari till., sem hér liggur fyrir, er að minni hyggju stigið nægilega stórt spor í þessu máli, eins og sakir standa. Það er alveg rétt, að hversu fer í framtíðinni kann enginn að segja um, en eins og hv. þm. V.-Sk. sagði, höfum við alltaf valdið í þessu máli, og ég vona, að við höldum áfram að halda þannig á því, að við getum alltaf haft réttinn okkar megin. Nú er það svo, að við vitum ekki þann dag í dag, hversu nærri við erum hinu raunverulega sjálfstæði, og það getur vel verið, ef við förum Þessa leið, þá sé hin eiginlega sjálfstæðisbarátta okkar að byrja. Það er augljóst, að rás viðburðanna hefur sýnt okkur, að það er fleira heldur en áhrif eða kúgun frá Dönum, sem við eigum að þakka sjálfstæði og frelsi manna á þessu landi. En þegar þess er gætt, að nú er varla afgreitt svo nokkurt mál, að ekki sé talað um lýðræði og hversu nauðsynlegt það er, þá verðum við að gæta þess vandlega, að þetta lýðræði verði meira í okkar höndum en orðin tóm. Mér virðist, að hin síðari ár höfum við sótt nokkuð fast í það horf, að meiri hlutinn hafi þjakað minni hlutann nokkuð meira en þörf var á. Enn verður þess allmjög vart, að réttar minni hl. í þjóðfélaginu er ekki gætt eins og vera skyldi hjá þjóð, sem gerir lýðræðið að sinni trúarjátningu. Þarf ekki að leita langt til að finna, hversu mikill voði stafar af því, að þjóðernismeirihl. hefur þjakað þjóðernisminnihl. Innan þjóðfélagsins held ég, að það muni geta haft svipuð áhrif, ef þjóðarmeirihl. gerir sér leik að því að meina minni hl. að ná sanngjörnum rétti sínum í þjóðfélaginu. Að öllu þessu athuguðu, verður affarasælast fyrir okkur, fámenna þjóð, að gæta þess í viðskiptum okkar út á við og í sjálfstæðismálunum, baráttunni fyrir frelsi og í sambúðinni inn á við, að við ekki eingöngu náum okkar rétti, heldur hugsum líka um rétt þeirra, sem við eigum skipti við.

Ég skal svo að lokum segja, að eins og mál þetta er undirbúið hér, ætti að geta orðið samkomulag um það á þessu stigi málsins, og ég fyrir mitt leyti mun greiða því jákvæði mitt.