16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3538)

154. mál, sjálfstæðismálið

Héðinn Valdimarsson:

Hæstv. fjmrh. er vanur að kljúfa orð og gerir það nú, þegar hann lýsir sig mótfallinn mínum till. Mér finnst andstaða hans undarleg, því að ég hef heyrt, að hann hafi hreyft svipuðum till. innan síns flokks. En það segir sig sjálft, að eins og þáltill. er orðuð samkv. mínum brtt. eru ýmis mál í sambandi v ið sambandsslitin, sem eftir væri að ræða um, t. d. jafnréttisákvæðið. Við getum ákveðið, að sambandsslit skuli fara fram, en við getum látið það liggja í þagnargildi um hríð. Það er fjarri því, að í mínum till. séu mótsagnir. Enda fór það svo, að hæstv. ráðh, hafði ekki rétt eftir mínar brtt. Hann talaði um formleg sambandsslit, en ég orðaði það: að ganga formlega frá sambandsslitum.

Ég tek mínar till. ekki aftur og allra sízt eftir þau ummæli hæstv. forsrh., að tvær leiðir væru opnar, en hæstv. fjmrh. segir hins vegar, að aðeins sé ein leið opin. Hæstv. forsrh. tók það fram, að það væri hægt að ganga leiðina eftir sambandslögunum.