21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3559)

152. mál, kirkjubyggingar í Skálholti og á Þingvöllum

Ísleifur Högnason:

Því verður ekki neitað, að ýmis mál, sem Alþ. hefur til meðferðar, sýna greinilega, að skilningur hv. þm. á þörfum þjóðarinnar á þessum tímum er ekki sem gleggstur. Það er ekki nema rúm vika liðin frá krossmessu, og hafa menn séð, hve húsnæðisvandræði hér í Reykjavík og öðrum kaupstöðum eru gífurleg. Hins vegar virðast hv. alþm. ekki hafa áhuga fyrir öðru fremur í húsnæðismálum en að endurreisa gamlar kirkjur, rétt eins og þeir óttist, að guð almáttugur lendi á götunni út af húsnæðisvandræðum. Minni áhyggjur sýnast hv. þm. hafa af því, hvað verður um þá tugi fjölskyldna, sem eru alveg húsnæðislausar. Og þegar þessir hv. þm. segja, að það sé raunalegra en tárum taki, hvílíkt sinnuleysi þjóðin sýni þessum gömlu kirkjum, verð ég að taka mér orð þeirra í munn og segja, að það sé þyngra en tárum taki, hve mikið skeytingarleysi þingheimur sýnir í ýmsum vandamálum þjóðarinnar, þar á meðal húsnæðiseklunni í kaupstöðunum.

Ég álít, að þetta mál eigi ekki að fá jákvæðar undirtektir. Það mætti seinna gera minningu Þessara sögustaða sómasamlega, t. d. með byggingu safna, en að fara að byggja stórar kirkjur eins og nú er ástatt, tel ég ekki aðeins ótímabært, heldur beinlínis heimskulegt, og hlýt ég því að greiða atkv. gegn þessu máli.