21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3564)

152. mál, kirkjubyggingar í Skálholti og á Þingvöllum

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Ég mun aðeins segja örfá orð um þetta. — Þar sem nú eru komin þinglok og þessi till. til þál. hefur lengi legið frammi, þá ættu hv. þm. að vera henni svo kunnugir, að þeir gætu vandræðalaust tekið afstöðu til hennar. En þessari till., sem hv. þm. N.-Þ. er með, verður varla bætt við þáltill, nema með sérstökum lið, og svo lengi hefur till. legið frammi, að kostur hefði verið á því. Mér finnst þetta mjög óskylt kirkjubyggingu í Skálholti, því það hefur á engan hátt hin minnstu áhrif á, hvort kirkja verður byggð né stærð hennar eða lögun. Kirkjan mundi verða með sama sniði, hvort sem biskupssetrið yrði flutt til Skálholts eða verður áfram hér í Reykjavík. Mér er ekki ljúft, að málinu sé vísað til n., ef n. fer að blanda þessum tveimur mál um saman, því að mér er ekki grunlaust um, að það kunni að ríða þessari till. til þál. að fullu. Ég vona, að hv. þm. N.-Þ. haldi sér ekki fast við, að þessu máli sé frestað. Um hans till. þarf sérstaka till. til þál.

Ég hefði verið fús til, að tekið yrði tillit til óska manna í þessu efni, en ekki með þeirri aðferð, sem hv. þm. N.-Þ. vill beita. Ég vona, að hv. þm. fari ekki að leggja stein í götu þessarar till. til þál., því að mér virðist hann vera okkur alveg sammála að öðru leyti. — Svo vænti ég þess, að hv. d. greiði fyrir málinu eftir megni.