25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (3580)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

*Steingrímur Steinþórsson:

Það var aðeins út af þeim orðum, sem féllu hjá hv. 3. landsk. um eitthvert frv., sem hann sagði, að við hv. þm. Mýr, og ég hefðum haft í undirbúningi fyrir 4 árum síðan í þinginu um fóðurmjölsbirgðir. Ég man nú ekki eftir þessu. Ég er líka satt að segja búinn að gleyma, hvernig frv. það var, sem Bændafl. flutti um það mál á sama tíma. En í sambandi við þessa þáltill., sem hér liggur fyrir og ég hef ekki annað en gott um að segja út af fyrir sig, vil ég segja það, að á þeim árum síðan þetta var sem hv. 3. landsk. var að tala um, að þessi frv. hefðu verið á ferð, hefur aldrei verið skortur á síldarmjöli í landinu. Það hefur á hverju ári síðan verið tryggt, að nægilegt síldarmjöl hafi verið til til fóðurs handa búfé landsmanna á næsta vetri. Og framkvæmd þeirra ráðstafana hefur verið á þann hátt, að kaupendur þessa síldarmjöls, framleiðendur í sveitunum, hafa fengið síldarmjölið með sérstaklega hagstæðu verði, þannig að félög bænda hafa getað fengið mjölið fyrir 25 kr. hver 100 kg. Og ef menn þá ekki gæta þess að taka nægilega mikið síldarmjöl til nota næsta vetur, þá er það ekki þeim að kenna, sem áttu að sjá um það, að nægilegt síldarmjöl væri til í landinu, sem hefur verið stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem alltaf hefur talið sér skylt að tryggja eftir föngum, að nægilegt síldarmjöl væri til í landinu, þó að félagið sem slíkt gæti ekki haft úrslitaáhrif á það, við hvaða verði mjölið væri selt. Ég lít svo á, að alltaf hafi verið séð um það að nægilegt síldarmjöl væri til í landinu.

Það mun vera rétt, að allmiklar síldarmjölsbirgðir eru í landinu nú, einkum á Raufarhöfn, og mun þar vera um 1. fl. mjöl að ræða, sem getur haft fullt verðmæti sem fóður. Hins vegar hygg ég, að það mjöl, sem kann að vera annars staðar til í landinu, hjá síldarverksmiðjum ríkisins og jafnvel hjá einhverjum einkarekstrarverksmiðjum, sé yfirleitt 2. fl. mjöl og hálfgert úrgangsmjöl. Og þó að gott síldarmjöl sé heppilegt til fóðurs, þá er hitt líka víst, að gamalt síldarmjöl er svo lélegt sem fóður, að það er tiltölulega lítils virði að taka það til slíkra hluta. Ég hygg, eftir því sem ég veit bezt, að ekki komi til greina að hafa til skepnufóðurs annað síldarmjöl, sem til er í landinu, en það, sem er hjá síldarverksmiðjum ríkisins á Raufarhöfn, sem mér hefur verið sagt að sé 1. fl. mjöl að mestu leyti. Nú hefur mér verið sagt, og það hefur komið fram hjá flm. líka, að þetta mjöl á Raufarhöfn sé selt, þó að ekki hafi tekizt að flytja það úr landi, og að síldarverksmiðjur ríkisins telji sig bundnar við þá samninga, enn sem komið er, þannig að ríkisvaldið yrði að skerast í leikinn, ef ætti að taka það til innanlandsnota.

Ég er háttv. flm. og háttv. 3. landsk. algerlega sammála um það, að það er algerlega höfuðnauðsyn fyrir landbúnaðinn á þessu ári, að tryggt verði, að ekki skorti síldarmjöl næsta vetur í landinu. Og það er rétt hjá hv. 3. landsk., að það er enginn, sem veit um, hvernig verður með síldarútveginn í sumar. En ég verð að segja, að það tekst þá óskaplega ógæfusamlega til með okkar atvinnuvegi, ef ekki heppnast að framleiða það af góðu síldarmjöli í sumar, sem nægi til innanlandsnota, því að það, sem notað hefur verið af síldarmjöli innanlands, hefur ekki verið nema lítið brot af því, sem framleitt er af því í landinu.

Nú er gamalt síldarmjöl aldrei eins gott til fóðurs og nýtt. Með því að geyma síldarmjöl til næsta vetrar nú, eigum við á hættu að fá verra fóður heldur en gott síldarmjöl, en þetta ber vitanlega að rannsaka. Og þetta atriði ber að ræða við hæstv. ríkisstj. í sambandi við þá þáltill., sem hér liggur fyrir.

Ég segi það fyrir mitt leyti, að ég hef ekki trú á því, að svo hörmulega takist til, að ekki verði eitthvað af síld veitt hér í sumar og eitthvert síldarmjöl framleitt í okkar verksmiðjum, að það gæti algerlega fullnægt innanlandsþörfinni. En þetta er ekkert nema mín skoðun, og það er enginn, sem getur sagt nokkuð um þetta á tímum eins og þessum.

Ég fyrir mitt leyti tel öllu réttara, enda hefur komið fram till. um það, að þessi þáltill. gangi til landbn. og verði athuguð þar, og tel ég eðlilegt, að landbn. eigi tal við hæstv. landbrh. um þetta mál. Að vísu hef ég rætt við hann um málið oftar en einu sinni, einmitt um síldarmjölið, og framtíðina. Og mér hefur skilizt á hæstv. ríkisstj., að hún óttaðist ekki, að ekki yrði um það mikla framleiðslu að ræða á síldarmjöli í sumar, að nægði til innanlandsnota næsta vetur. En þó að ég hafi látið þessar aths. falla viðvíkjandi þessu máli, þá er svo langt frá því að ég viðurkenni ekki nauðsyn þess, að allt sé gert, sem unnt er, til þess að tryggja þetta atriði, — og það, sem farið er fram á, um að festa mjölið á Raufarhöfn, verði tekið til athugunar. Og það verður ekki tekið til innanlandsnota, nema með aðstoð löggjafarvaldsins að einhverju leyti, því að þetta mjöl mun vera selt nú, þó að það hafi ekki verið flutt út til þessa.