25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (3581)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

Bergur Jónsson:

Ég get yfirleitt þakkað hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Skagf. fyrir undirtektir þeirra undir till. Ég vil aðeins geta þess, viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, að till. er ekki eingöngu bundin við síldarmjölið á Raufarhöfn. Enda er ekki síður í till. lögð áherzla á, að þannig verði gengið frá málum í sumar, að það verði tryggt sem bezt, að síldarmjöl verði nægilegt til í landinu til fóðurbætis.

Ég tók fram í fyrstu ræðu minni, að ég mundi ekki gera till. um það, að till. færi til n. Hins vegar tók ég ekki afstöðu á móti því. Og í fullu trausti þess, að hv. landbn. taki málið til rækilegrar yfirvegunar og flýti því jafnhliða eins og hún getur, get ég tekið undir þá till. hv. 3. landsk. Auðvitað legg ég ríka áherzlu á, að málið verði ekki látið sofna í n.