25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (3582)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

*Eiríkur Einarsson:

Svipaðar þáltill. þessari hafa verið lagðar fyrir hæstv. Alþ. nokkrum sinnum áður, og er ekki nema gott um það að segja, til hvatningar því, að fóðurbirgðir verði tryggðar handa landsmönnum komandi vetur. Og allt um heyöflun er enn í óvissu hvað snertir þetta ár og því nauðsynlegt að athuga þetta mál rækilega nú.

Það, sem ég vildi sérstaklega taka fram hér, er það, að að þessu sinni furðar mig nokkuð á því, þegar rætt er hér á hæstv. Alþ. um öryggisráðstafanir til þess að tryggja eitthvert lágmark fóðurbirgða handa búpeningi landsmanna næsta vetur, að þá skuli það ekki koma fram á víðtækari hátt heldur en þessi till. ber með sér. Mér finnst það, sem till. fer fram á, að tryggja síldarmjölsbirgðir, vitanlega nauðsynlegt. En mér finnst, af því hvernig allt horfir nú og hvernig þau mál eru hugsuð og rædd og hvaða öryggisleysi fylgir afkomu landbúnaðarframleiðslunnar með tilliti til fóðurs handa búpeningi í landinu og með tilliti til nauðsynjar þess, að við verðum ekki að ganga á bústofninn, hverju sem fram vindur, — að þessar öryggisráðstafanir hljóti að ræðast á þinginu sameiginlega, lið fyrir lið, í stað þess að ræða þær í till., sambandslausum hverri við aðra. Blöðin gefa venjulega tóninn að því, sem hugsað er úti um landsbyggðina. Og sú hugsun er almenn, að það verði á næsta sumri, vegna óeðlilegrar og yfirspenntrar eftirspurnar eftir vinnuafli, gert erfitt fyrir bændur að afla nægilegs heyfengs. Mér finnst þetta atriði eigi að verða meira en venjulegt blaðamál. Það á að koma til umr. og ákvörðunar á Alþingi því, sem nú situr. Það er mín skoðun, að svo hljóti að verða, og þá finnst mér aðrir liðir sama málefnis, öruggar tryggingar fóðurbirgðanna, eigi að ræðast í samhengi við þetta mál. Því að hversu mikið þarf af síldarmjöli, fer ekki lítið eftir því, hve mikilla heyja er aflað. Það lítur út fyrir, að það þurfi að greiða kaupafólki hátt kaup, miðað við þá vinnu, sem hægt er nú að fá í landinu. Og ef bóndi t. d. tekur tveim kaupahjúum færra þess vegna, einum karlmanni og einni kaupakonu, þá er spurningin þessi: Verður bóndinn þá að fella þann hluta bústofnsins, sem því nemur, er þessi tvö kaupahjú hefðu getað heyjað fyrir? Þetta krefst úrlausnar hæstv. Alþ. Mér virðist, að þetta ætti að ræðast allt í samhengi hvað við annað, hvað hægt er að gera til þess að tryggja bændum, að þeir þurfi ekki að fella af bústofni sínum vegna ónógs heyfengs.