07.06.1941
Neðri deild: 73. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Út af þessu, sem hv. þm. Ísaf. minntist á hér, vil ég segja, að ég held, að það sé alveg óþarfur ótti hjá honum, sem fram kom í hans ræðu. Það er í þessari þáltill. ekki farið fram á annað en það, að hlutazt sé til um, eftir því, sem við verður komið, að nægilegar birgðir verði til í landinu af síldarmjöli, sem fáanlegt sé við hóflegu verði. Hér er ekki til tekið nokkurt ákveðið verð. Og það er hægt á ýmsan hátt að greiða fyrir því, að síldarmjöl fáist með hóflegu verði til bænda, án þess að það þurfi að ganga út yfir hlut þeirra manna, sem síldina veiða. Það hefur stundum verið samið um lækkun á farmgjöldum, og það er hægt á ýmsan hátt slíkan að greiða fyrir því, að þessi vara fáist við lægra verið heldur en annars mundi vera. Og til þessa hefur verið gripið áður, og það er m. a. þetta, sem getur legið í því orðalagi, sem er á þessari brtt. frá landbn. Hins vegar tel ég ekki ástæðu til að veita ríkisstj. heimild til þess að nota fé í þessu skyni. En eins og brtt. n. við þáltill, er orðuð, álít ég, að það verði tryggt, að nægilegt síldarmjöl verði til í landinu til nota mæsta vetri. Og það er einróma skoðun landbn., að það verði látið sitja fyrir að tryggja landsmönnum síldarmjöl til þeirra nota, áður en síldarmjöl er selt út úr landinu. Og það er krafa, sem við gerum um þetta. Og ef þessi þáltill. verður samþ. hér í hv. d., lítum við á það sem vilja þessarar hv. þd., að slíkt verði gert. Við miðum brtt. okkar fyrst og fremst við framleiðslu þessa árs, en ekki það, sem kann að liggja ófarið enn af birgðum síðasta árs. En við teljum sjálfsagt, að það verði athugað líka, og það má gjarnan líka liggja í orðalagi þáltill., að það verði athugað, að ef eitthvað verulegt er til af síldarmjölsbirgðum í landinu og ef sérstaklega illa lítur út um síldveiðar í sumar, hvort eigi að kyrrsetja þær síldarmjölsbirgðir, sem til kunna að vera hér á landi. En það er á valdi ríkisstj., hvernig með þetta er farið. Sé ég ekki ástæðu til að taka neitt frekar fram um þetta atriði. En ég hygg, að ótti hv. þm. Ísaf. um það, hvað fyrir okkur vakir með þáltill., sé alveg ástæðulaus. Því að með þessu orðalagi : „við hóflegu verði,“ — þá er ekki tekið fram neitt verð út af fyrir sig, heldur að þess sé gætt, að verðinu verði stillt svo í hóf sem ríkisstj. sér sér fært að gera. Hins vegar, ef farið væri að veita henni einhverjar fjárframlagaheimildir í þessu, býst ég við, að við í landbn. mundum fallast á, að greiddur verði verðmismunur í þessu skyni. En það höfum við ekki séð okkur fært að fara fram á.