07.06.1941
Neðri deild: 73. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3589)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

*Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti! Ég verð nú að segja það, að mér finnst, að það gangi orðið nokkuð langt sú andúð, sem virðist koma fram gagnvart vissri stétt í landinu frá vissum mönnum, þegar þeir þola ekki að sjá á prenti, að þessi stétt eigi að fá einhverja vöru með hóflegu verði. Hvers konar hugsunarháttur er það, sem er að grafa um sig hér á hæstv. Alþ.? Blað, sem þessi hv. þm. (FJ) stendur mjög nærri og fl. hans, það rýkur upp í gær, út af því að neytendur fái ekki vöru með hóflegu verði, þegar reynt er að meta afurðir eftir beztu getu, og neytendur fá þær vissulega með lægsta verði, sem um er að ræða yfirleitt á innlendum afurðum, eins og sakir standa nú. Framleiðendur mega ekki, eftir blaðaskrifum í blaði flokks þessa hv. þm. að dæma, fá hóflegt verð eftir mati fyrir sínar vörur, og ef þeir eiga að fá vöru handa sér við hóflegu verði, þá er rokið upp til handa og fóta hér í hæstv. Alþ. til að mótmæla því, að svo megi verða. Það stendur einhvers staðar um visst dýr í ríki náttúrunnar, að það sé lítið, sem tunga þeirrar skepnu finnur ekki. Og ég verð að segja, að ef menn þola ekki að heyra þetta, hvað því viðvíkur, hver viðskipti eigi að vera milli stétta í landinu, að þær eigi að fara fram þannig, að selt sé við hóflegu verði, þá held ég, að hér sé komið inn á svið, sem ég held, að muni verða háskalegt fyrir okkar þjóðfélag, eins og tímarnir eru nú. Ég veit, að frá flokki þessa hv. þm. hafa komið fram till. um, að verðlag á vörum, sem bændur framleiða, skuli vera undir eftirliti ríkisstj. um, að það fari ekki upp. En ég veit ekki til, að nokkurt eftirlit sé með fiskverði innanlands, og ég veit ekki annað en að það sé frjálst að selja fisk með óheyrilegu okurverði og ekki sé sagt eitt einasta orð við því. Ég þori að fullyrða, að fiskverð hér í bæ er áreiðanlega helmingi eða þrisvar sinnum hærra eftir næringargildi varanna heldur en verð mjólkur og mjólkurafurða, en við því er ekki sagt eitt einasta orð.

Það er heldur ekkert eftirlit haft með verði á síldarafurðum, og hefur ekkert verið við því sagt. En ef þessir hv. þm. svo sjá það á prenti, að það eigi að selja síldarmjöl við hóflegu verði til vissrar stéttar í landinu, þá er það athugaverður hlutur, sem ekki má ganga ómótmælt gegnum hv. d.

Ég vil vekja athygli á því, að á þessum tímum, eins og tímarnir eru nú og þörfin fyrir stéttirnar að vinna saman, og þegar búið er að hækka laun embættismanna með dýrtíðaruppbót eftir vísitölu dýrtíðarinnar, þá eigi sú stétt, sem lífsafkoma þjóðarinnar byggist að verulega leyti á og getur í vissu tilliti orðið eini bjargvættur landsmanna, ekki skilið að vera hundelt um, að hún megi ekki selja afurðir við sanngjörnu verði og ekki kaupa vörur við hóflegu verði. Ef meiningin er að taka þessa stétt þannig fyrir í einelti, þá er meiri vá fyrir dyrum heldur en menn grunar, sem getur leitt til hinna alvarlegustu hluta, miklu alvarlegri en mörg önnur pest, sem komið hefur á þessu landi og þjakað á undanförnum árum. Vil ég, að menn geri sér ljóst, að það verður frá mínu sjónarmiði að líta á það mjög alvarlegum augum yfirleitt, þegar svona hugsunarháttur skýtur upp höfðinu.