22.04.1941
Sameinað þing: 7. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3613)

65. mál, orlof

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Þessi þáltill., sem er flutt af okkur Alþflm. hér á þingi á þskj. 98, fer fram á að fela stj. að skipa 3 manna mþn. til þess að undirbúa löggjöf um orlof fyrir verkamenn og sjómenn.

Ég hygg að það sé orðið mönnum nokkuð ljóst, að með breyttu atvinnulífi í landinu og vegna fólksfjölgunar í bæjum eru nú starfshættir orðnir allmjög breyttir frá því, sem verið hefur áður. Afleiðingin af þessu er sú, að nauðsynlegt er, að þetta fólk fái hvíldartíma á árina, sem það gæti notað til að lyfta sér upp og veita sér hvíld frá daglegum störfum.

Á Norðurlöndum, sem lengst voru komin í þessu efni, mátti segja, að þessi mál væru komin í örugga höfn. Í Danmörku voru sett l. um þetta árið 1938, í Finnlandi 1939 og í Noregi með 1. um vinnuverndun frá 1936 og í Svíþjóð árið 1938. Öll þessi lönd hafa stefnt að því sama marki, að löggjöfin tryggði öllu þessu fólki á einhverjum vissum tíma ársins lögskipaða hvíld með fullum launum. Að sjálfsögðu fylgja þar með ýmsar aðrar ráðstafanir, sem reglugerðarákvæði eru um til að tryggja, að þessi 1. komi verkalýðnum að fullum notum. Danir settu á fót sérstaka stofnun, sem hafði það með höndum að undirbúa sumarferðir fólks, gera þær sem ódýrastar og yfirleitt að greiða fyrir, að fólkið gæti notið sumarfrísins eins og bezt mætti verða. Í 1. hjá Dönum er gert ráð fyrir, að þessi sumarfrí skuli vera gefin einhvern tíma á tímabilinu 2. maí–30. sept. Við höfum hins vegar í þessari till. ekki viljað binda fríið eingöngu við sumarið, heldur gerum ráð fyrir, að einnig megi gefa það að vetrarlagi, sumpart af því að okkar vinnuhættir eru svo, að erfitt er fyrir nokkurn hluta fólksins að taka sér frí um hábjargræðistímann, og hins vegar af því, að nú er sú stefna mjög uppi hjá okkur, að margt fólk vill gjarnan eiga orlof sitt að vetrinum til og nota það í fjallgöngur, skíðaferðir og annað slíkt, svo að það ætti að geta verið nokkuð frjálst, á hvaða tíma orlofið er notað.

Hér á landi er þetta mál komið á nokkurn rekspöl, þar sem í Reykjavík hefur víða verið komið á félagslegum samningum um, að verkalýðurinn fengi nokkurra daga sumarfrí, en ég hygg, að utan Reykjavíkur hafi slík frí óvíða verið tekin upp í samningum, — þó mun það vera á Akureyri meðal iðnaðarverkafólks. Hér í Reykjavík hafa skipstjórar tryggt sér einn mánuð og stýrimenn upp í mánuð, undirmenn á kaupskipunum hafa 11 daga, á fiskiskipum eru það aðeins 7 dagar, en á minni skipum er það ekkert ákveðið í samningum. Meðal iðnaðarmanna og bakara er það upp í 12 daga, matsveinar og hliðstæðir menn á skipum hafa upp í 10 daga, en veitingaþjónar í landi hafa aðeins tryggt sér sumarfrí, sem er tveir dagar í mánuði. Fastráðnar þvottakonur hafa tryggt sér viku og afgreiðslustúlkur í brauðabúðum sjö daga, prentarar hafa nú þegar tryggt sér tólf daga og bókbindarar eitthvað svipað, og fastráðnar ræstingarkonur hafa sjö daga. Þá er verzlunarfólk. Þar hefur „Kron“ með samningi tryggt sínu fólki tólf virka daga, og eitthvað svipað mun það vera hjá verzlunarfólki yfirleitt, og eins hjá opinberum stofnunum mun það vera allt upp í hálfan mánuð. Járniðnaðarmenn hafa átta daga og bifreiðarstjórar fimm daga frí o. s. frv. Iðnaðarfólk, t. d. við smjörlíkisgerðirnar, hefur tryggt sér upp í 12 virka daga og starfsstúlkur á þvottahúsum, sem vinna heilt ár, fá upp í 12 daga. Hjá iðnaðarfólki eru það 7–10 dagar, en fjölmennasta stéttin meðal verkamanna, sem er óiðnlærðir verkamenn, eru undanskildir sumarfríi. Þó mun Reykjavíkurbær veita eitthvert sumarleyfi þeim, sem eru fastráðnir starfsmenn í bæjarvinnunni.

Það liggur í hlutarins eðli, að það er mikils vert fyrir vinnandi menn, hvort sem þeir vinna innivinnu eða útivinnu, og eru alltaf bundnir við þessi störf og verða að sjálfsögðu að leita eftir vinnu, þegar lítið er um hana og þeir því ekki frjálsir að láta neitt eftir sér í þessu efni, að þeir geti einhvern tíma lyft sér upp og komizt út úr bæjarrykinu með sig og sitt skyldulið, því að það hefur bæði líkamlega og sálræna þýðingu fyrir vinnandi menn að geta varið einhverjum vissum tíma ársins, sérstaklega að sumarlagi, til að komast út úr bæjunum, helzt sem lengst, og sjá sig eitthvað um. Ég hef orðið þess var á síðari árum um marga verkamenn, að það er eins og þeir hafi séð nýtt viðhorf á lífinu, ef þeir hafa getað ferðazt lítið eitt. Margir hafa ekki farið neitt burt frá heimili sínu nema í atvinnuleit og þannig ekki átt þess kost að sjá fegurstu staði hér á landi, sumpart af því, að þeir hafa ekki fengið frí, og sumpart af því, að þeir hafa ekki haft ráð á því fjárhagslega. Er því mikil nauðsyn að ráða einhverja bót á í þessum efnum.

Önnur hlið á þessu máli er sú, að ætlazt er til, að n. sú, sem um þetta mál á að fjalla, reyni að finna einhverja lausn á því að gera ferðalögin fyrir vinnandi fólkið sem ódýrust, þannig að hverjum manni verði kleift að geta varið örstuttum tíma á ári hverju til þess að njóta ferðalags á sem ódýrastan hátt. Einmitt þetta var komið í framkvæmd á Norðurlöndum fyrir stríðið, og þess sáust greinileg merki, að mikil ánægja var meðal vinnandi fólksins út af þessari starfsemi.

Þetta eru þau tvö meginviðhorf, sem sú væntanlega n. kemur til með að athuga.

Ég veit, að ég þarf ekki að ræða meira um þetta. Ég vænti þess, að menn geti fallizt á, að

Þetta sé mikið menningarmál fyrir vinnandi stéttirnar og að rétt sé og skylt að vinna að því eftir getu, að undirbúin verði löggjöf, sem tryggi þessu fólki einhver frí: En málið er umfangsmikið og tæplega unnt fyrir þm. að ganga frá því í öllum atriðum, án þess að unnið sé sérstaklega að því milli þinga, og þess vegna er till. okkar fram komin, að málið verði athugað í mþn. og þeir einir verði í n. settir, sem sérstaklega hafa þekkingu og skilning til að koma málinu í örugga höfn. Eru það fyrst og fremst hinn sameinaði verkalýður í landinu og atvinnurekendur, sem þurfa að leggja fram sína liðsemd, því að það snertir sérstaklega þessa aðila, og þriðji maðurinn er að sjálfsögðu án útnefningar, og mundi stj. tilnefna hann. Þannig er þetta hugsað af okkur, sem flytjum þetta mál, og vænti ég, að það geti siglt í nokkurn veginn örugga höfn með því fyrirkomulagi, sem við leggjum til.