14.06.1941
Sameinað þing: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (3637)

71. mál, milliþinganefnd um skólamál

*Gísli Sveinsson:

Ég heyri sagt, að lítil von sé til þess, að hæstv. forsrh. sýni sig á þessum fundi, en sessunautur minn, hv. 1. þm. Skagf., hefur lofað að „svara fyrir barnið“, ef svo mætti að orði komast. Það mál, sem nú liggur fyrir, er till. til þál. um skipun milliþn. í skólamálum. Till. og grg. sú, sem henni fylgir, var borin fram á sínum tíma af hv. 1. þm. Skagf. Ég verð að segja, þó að ég sitji honum nær, að ég var jafnnær um tilgang till. Mér virtist ekki koma neitt nýtt fram frá því, sem grg. inniheldur. Nú hefur allshn. Sþ. haft þetta mál til meðferðar, og varð hún að lokum ásátt um, eins og stendur í nál., að afgreiða málið til frekari meðferðar í þinginu. Minni hl. n., ef svo mætti kalla, vildi fallast á till. og taldi ekki þurfa frekar vitnanna við. Meiri hl. eða þeir, sem skrifuðu undir nál, með fyrirvara, fannst skortur á fullnægjandi skýringum á hlutverki slíkrar n., ef hana ætti að skipa, en nú þykist ég vita, að skýringin komi frekar fram. Má segja, að alltaf megi tala um, að svo miklu máli sé í mörgu ábótavant. Annars hefur aldrei, svo að ég viti, komið fram á þinginu till. um skólamál, svo að ekki hafi verið gerðar aths. og sumar réttlátar um það fyrirkomulag, sem hefur verið, er og ætti að vera á þessum málum. Nú eru margir á þeirri skoðun, að sumum málum sé bezt borgið nefndalaust og að þau fari bezt fram, ef þau haldi sem lengst áfram á sinni braut. Ef ágallar koma á þau, má lækna þau með 1. eða stjórnarframkvæmd. Eftir því, sem mér hefur skilizt, á þessi n. ekki aðeins að hafa til meðferðar eina tegund skóla, heldur alla barnaskóla, unglingaskóla, alþýðuskóla, bændaskóla o. s. frv., og það er svo yfirgripsmikið mál, að ekki mundi veita af sérstakri n. við hverja tegund skóla. Nú er sá háttur tekinn upp, ef till. nær samþ., að skólamálin a að afgreiða með því að vísa þeim til þessarar n., sem enn er ókjörin. Mætti nota þetta sem skálkaskjól til að koma málum fyrir kattarnef, en það mun tæplega hafa verið tilgangur hv. flm. með till. Ef þessi n. á að hafa með alla skóla að gera, hverju nafni, sem þeir nefnast, þá sé ég ekki betur en stefnt sé út í bláinn og n. geti ekki komið að tilætluðum notum. Hún mun ekki geta unnið hlutverk sitt í heild með von um árangur. En það væri allt annað mál, ef skólarnir væru sundurliðaðir og því komið fyrir á þann hátt, að menn tækju upp einhver nýmæli í sambandi við hverja tegund skóla og héldu öðru, sem gott væri. Menn mundu gruna slíka n. í skólamálum um, að hún ætlaði sér að bylta einhverju, sem við vildum ekki láta bylta. Ég hef ekki verið hrifinn af ýmsum nýjum kennsluaðferðum í barnafræðslunni, og er illu heilli horfið ýmislegt það, sem var heilbrigt í fari kennslunnar fyrir 30 árum, þó að ófullkomið teljist. Þá finnst mér keyra alveg um þverbak að verksvið n. skuli líka eiga að ná til háskólans. Í raun og veru hefur sá skóli sérstöðu og getur alls ekki átt samleið með öðrum skólum. Ég býst við, að hv. flm. till. hafi fundizt mikil þörf á því, að þetta og hitt þyrfti að samræma í skólakerfi landsins, frá því lægsta til hins efsta. Þetta má til sanns vegar færa, en ég get ekki fallizt á að slengja háskólanum saman við aðrar stofnanir og láta eina nefnd rázka í öllu saman. Skólamál landsins eru í raun og veru svo óskyld, að þau eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið, og má alls ekki blanda þeim saman. Yfirleitt tel ég, að till. sé þannig orðuð, að aldrei muni nást með henni viðunandi tilgangur.

Ég hef nú gert nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég er mótfallinn till.