23.05.1941
Sameinað þing: 19. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3654)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

Gísli Guðmundsson:

Ég vil benda á, að það er hæpið, sem hv. þm. Ak. sagði, að innistæðueigendur, sem keyptu hlutabréf, eigi kröfu til ríkisstj. í þessu máli. — Það, sem gerðist árið 1930, var, að einkabanki varð gjaldþrota, og ef ekki hefðu verið gerðar ráðstafanir af hálfu hins opinbera, þá hefðu menn misst innistæður sínar þar, að minnsta kosti að allverulegu leyti, því að hið opinbera ber enga ábyrgð á einkafyrirtækjum. — Hins vegar býst ég við, að það, sem fyrir hv. flm. vakir, sé það, að þessum mönnum sé hjálpað, en að tala um, að þeir eigi hér kröfurétt, það nær engri átt.

Ég vil benda á, að orðalag till. heimilar ríkisstj. að kaupa hlutabréf, sbr. það, sem þar stendur: „. . . að heimila ríkisstj. að hlutast til um, að eigendum hlutabréfa þeirra í Útvegsbanka Íslands, sem keypt voru með hluta af sparisjóðs- og innlánsskírteinainnistæðum þeim, sem inni stóðu í Íslandsbanka, þegar hann var lagður niður, verði gefinn kostur á að selja ríkissjóði þessi hlutabréf með hæfilegu verði.“

Ef sá skilningur er réttur, sem hv. þm. Vestm. lagði í þetta, þá þyrfti að breyta orðalagi till.