23.05.1941
Sameinað þing: 19. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3655)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

Sigurður Kristjánsson:

Aðeins nokkur orð út af því, sem hv. þm. N.-Þ. sagði um, að innistæðueigendur í Útvegsbanka Íslands eigi enga kröfu til ríkisstj. út af þessu fé sínu. — Til er tvenns konar réttur, hinn siðferðilegi og hinn lagalegi réttur, og ég held, að það sé þá af ókunnugleika hv. þm., ef þessir menn eiga ekki rétt á fénu. Mér er kunnugt um, hvernig þetta fé varð til. Ég ætla ekki að fara út í gjaldþrot Íslandsbanka, því það er umdeilt mál og því bezt að láta það liggja á milli hluta, en mér er kunnugt um, að innistæðueigendur þar fóru ekki jafnt út úr því. — Sumir virtust hafa haft hugboð um, hvað á seyði væri, hvernig sem því var nú farið, og björguðust þar af leiðandi. Svo voru aðrir, sem álitu, að þessi stofnun, sem var stoð undir sjávarútveginum, yrði að bjargast. — Sérstaklega voru þetta menn við sjávarsíðuna, sem áttu bæði beint og óbeint framtíð sína í, að sjávarútvegurinn biði engan hnekki, og létu fé af hendi af lítilli getu. — En allir, sem ég þekki og létu fé þannig, létu það með því skilyrði, að Íslandsbanki yrði endurreistur. — Nú fór svo, að bankinn var lagður niður og nýr stofnaður. Þessir menn höfðu því rétt á, að þeir fengju féð aftur, en það var tekið af þeim með valdi og notað sem hlutafé í aðra stofnun. — Með þessu hefur að minnsta kosti skapazt ríkur siðferðilegur réttur til að bæta mönnum þetta, og að því er ég hygg, einnig lagalegur. — Hins vegar er óárennilegt að fara í málarekstur við stofnun, sem menn þurfa að hafa sér vinveitta í atvinnurekstri. Hér er farið fram á, að hinn siðferðilegi réttur sé viðurkenndur, og ég fullyrði, að sá réttur sé fyrir hendi, þrátt fyrir ummæli hv. þm. N.-Þ.