16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (3676)

172. mál, verðuppbót á mjólk og mjólkurafurðir

*Sveinbjörn Högnason:

Flm. þessarar till. hafði aðeins drepið á það við mig, að hann mundi flytja hér till., er gengi út á það, að ríkisstj. hlutaðist til um, að greiddar verði uppbætur úr Bretasjóðnum á mjólk og mjólkurafurðir.

Nú hefur hann borið fram þessa till., sem er hér á þskj. 751 og ég vitanlega vildi helzt kjósa að hægt væri að samþ. og mun fylgja. En hefði ég verið í samráði við hv. flm. um að flytja till., mundi ég hafa óskað að orða hana á annan veg. Ég tel, að till. hefði átt að orða á þá leið, að uppbætur úr Bretasjóðnum yrðu ekki greiddar á aðrar afurðir en þær, sem fluttar hafa verið út áður.

Í fyrra var þannig ástatt í þessu efni, að við áttum allmikið af mjólkurafurðum, sem ætlaðar voru til útflutnings, en ekki var hægt að flytja út á því ári. Hér á ég aðallega við osta. Í Þýzkalandi var hægt að fá sæmilegt verð fyrir þessa vöru, en í Englandi var verðið miklu lægra. En vegna þess að Þýzkalandsmarkaðurinn lokaðist og ekki fékkst viðunandi verð fyrir ostana í Englandi, var ekkert flutt út af ostum á árinu 1944. Miklu af mjólk, sem fór til þeirrar framleiðslu áður, var breytt í skyr, sem sent var heim til bændanna til neyzlu.

Mér skilst, eftir þeim skilningi, sem Bretar hafa lagt í þessar uppbætur, að hægt muni vera að fá verðuppbætur á þessar afurðir. Það hefur verið í undirbúningi að semja um þetta skýrslu og leggja hana fyrir nefnd þá, sem úthluta á úr Bretasjóðnum.

Í bréfi frá Mjólkurbúi Flóamanna til mjólkursölunefndar, dags. 27. maí s. 1., segir á þessa leið : „Árið 1939 fluttum vér út 123869 kg af osti. Vegna hins lága verðs á osti í Englandi framan af árinu 1940 töldum vér ekki fært að framleiða þá vöru fyrir enskan markað, en tókum það ráð, í samráði við mjólkursölunefnd, að senda bændum heim undanrennu og skyr í stórum stíl úr þeirri mjólk, sem að öðrum kostihefði farið til framleiðslu á útflutningsosti. Ef vér hefðum ekki notað undanrennuna á þennan hátt, hefðum vér orðið að flytja út ost, sem mundi hafa orðið a. m. k. eins mikill og á árinu 1939.“

Ég tel ekki þörf á að lengja mál mitt bréfinu til skýringar. En við sjáum, að æðimikið magn var flutt út af ostum 1939, og hefði sömuleiðis verið flutt út 1940, ef markaðirnir hefðu ekki lokazt af styrjaldarástæðum, og mér finnst eðlilegt, að þessir hlutir eigi að koma til með að verðuppbætast. Ég vildi helzt, að fært þætti að nota það út í yztu æsar, en vildi mjög gjarnan fá yfirlýsingu Alþingis um, að það, sem var óseljanlegt 1940, vegna þess að Þýzkalandsmarkaðurinn lokaðist, yrði bætt upp úr þessum sjóði.

Ég bjóst við, að fleiri töluðu á undan mér í þessu máli, og ætlaði að nota tímann til að semja brtt. um það, að þessi skilningur yrði staðfestur á Alþingi, og vildi mælast til þess, að mér yrði gefið tóm til að semja þessa till. En till. mun verða eitthvað á þá leið, að þó að ríkisstj. telji sér ekki fært að sjá um, að verðuppbætur komi á allar mjólkurafurðir, þá komi þær a. m. k. á þennan útflutning. Og býst ég við, að það verði talsverð upphæð, sem þarna hlyti að koma til greina. Þó vildi ég gjarnan óska, ef ríkisstj. sæi sér það fært, að verðuppbætur komi á allar framleiðsluvörur landbúnaðarins. En ég vildi ekki sleppa því, að þessi skýring fengist, og mun í samræmi við hana flytja skriflega brtt.