16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (3677)

172. mál, verðuppbót á mjólk og mjólkurafurðir

Flm. (Pétur Ottesen) :

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm., Rang. sagði, að ég hafði á orði við hann að flytja hér till. um þetta efni, en það bar svo fljótt að, að ég náði ekki til hans og lét þess vegna till. í prent. Enda vissi ég, að þetta mál átti alltaf góðan stuðning, þar sem hann var. En ég vil skjóta því til hv. 1. þm. Rang., að hann fari nú ekki að bera fram brtt. um að einskorða þetta við ostaútflutninginn, því það leiðir vitanlega af sjálfu sér, eins og hæstv. forsrh. talaði um, að sú útflutningsvara hlýtur að koma undir þessi ákvæði.

Hv. 1. þm. Rang. hefur lýst því hér, að við hefðum haft góðan markað í Þýzkalandi, en nú hefði gersamlega lokazt fyrir þann markað. Ef við gerum ráð fyrir, að svipuð hækkun hefði orðið á ostum, sem við gátum selt til Þýzkalands, og öðrum vörum, t. d. gærum, sem okkur tókst að selja þangað haustið 1939, þá sjáum við, hve mikils við höfum misst við lokun þessa markaðar. Ég held, að slík till. sem hv. 1. þm. Rang. ætlar að koma með yrði til þess að útiloka möguleikana fyrir því, að uppbót verði greidd á aðrar mjólkurafurðir.

Ef það er vilji Alþingis og stjórnarvaldanna, að þessum sjóði sé ráðstafað til þess að verðbæta þessar afurðir, þá skil ég ekki í því, að Englendingar mundu setja sig upp á móti því.

Ég hef talað við hæstv. atvmrh. um þetta, og hann var á þeirri skoðun, að miklar líkur væru til þess, að samþykki Englendinga fengist fyrir því, að uppbætur úr sjóðnum fengjust á þessar afurðir.

Ég vildi skjóta því til hæstv. landbrh., að hann beiti sér eindregið fyrir því, að þetta fáist samþykkt.

Ég legg á móti því, að till. verði vísað til ríkisstj., en óska þess, að þáltill., eins og hún liggur fyrir, verði samþykkt.