17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í D-deild Alþingistíðinda. (3688)

100. mál, hafnbannsyfirlýsing Þjóðverja

*Flm. (Bergur Jónsson) :

Í fyrra vor, ég held rétt eftir að Danmörk og Noregur voru hertekin af Þjóðverjum, barst íslenzku ríkisstj. tilkynning frá aðalræðismanni Breta hér á Íslandi um það, að Bretar mundu telja sér nauðsynlegt að gera ýmsar hernaðarráðstafanir hér á Íslandi, sérstaklega með tilliti til innrásar, ef við Íslendingar gæfum samþykki okkar til þess sem hernaðaraðilar og bandamenn Breta. Íslenzka ríkisstj. synjaði tilmælum þessum og mótmælti tilkynningunni, og var það tilkynnt í útvarpinu og blöðum hér á landi.

Þegar Bretar hertóku Ísland síðar, hinn 10. maí 1940, voru borin fram kröftugleg mótmæli gegn hernáminu af hálfu íslenzku ríkisstj., og Íslendingar áskildu sér fullar bætur fyrir hvers konar spjöll, sem af hernáminu kynni að leiða.

Þessara mótmæla var getið bæði í blöðum og útvarpinu, enda þótt þau hafi aldrei verið birt orðrétt: Bretar lýstu yfir því, að þeir mundu ekki raska réttarstöðu Íslands og ekki skipta sér af innanlandsmálum. Íslenzku ríkisstj. hefur eigi verið álasað fyrir framkomu sína í þessu máli, heldur hafa allir, er hreyft hafa þessu máli opinberlega, talið mótmælayfirlýsinguna réttmæta.

Mér þykir rétt að rifja upp þessar staðreyndir, um leið og ég ber fram þá till. til þál., sem hér liggur fyrir til umr. Ég tel það tvímælalaust rangt að mótmæla tilmælum annars hernaðaraðilans um leyfi til hernaðaraðgerða hér á landi, enda þótt þungbærar séu, en láta ómótmælt yfirlýsingu hins hernaðaraðilans, þegar landið er lýst í hafnbann og Íslendingar eru svo réttindalausir, að það má skjóta niður öll skip, hvar sem er, við strendur landsins og reyna að svelta þjóðina inni og láta saklausa íslenzka sjómenn, er reyna að halda uppi siglingum að og frá landinu, falla fyrir hervopnum. Það er enn fremur ákaflega niðurlægjandi orðalag í yfirlýsingu Þjóðverja, þegar Ísland, sem er fullvalda ríki, er kölluð dönsk eyja. Slíkt orð er vitanlega smánaryrði, og er það ekki sízt móðgandi fyrir þá sök, að það er notað af ríkisstj. þess lands, sem hertekið hefur sambandsland vort, Danmörku, og hefði því átt að geta vitað rétt um þjóðréttarstöðu Íslands. Ég tel mér skylt, einkum þar sem hæstv. utanríkismrh. er hér staddur, að mæla nokkur orð með þessari till. Mér hefur verið tjáð, að hafnbannsyfirlýsingu Þjóðverja frá 25. marz síðastl. hafi verið mótmælt af hæstv. ríkisstj. og mótmælin send þýzku stjórninni, og rengi ég það vitaskuld á engan hátt. En með því að þau mótmæli hafa ekki komið fram opinberlega, tel ég vel viðeigandi, að Alþ. lýsi yfir vilja sínum í þessu efni, bæði um það, að ákveðin, kröftug mótmæli gegn þessu séu látin í ljós og jafnframt um það, hvaða atriði skipta máli.

Ég hef í 2. tölul. bent á þrjú meginatriði, sem ég tel rétt að mótmæla, en vitaskuld er hægt að breyta þessu, bæði af þeirri n., sem fær málið til meðferðar, og líka af Ed. og Nd., því að það er ætlazt til þess, að það gangi gegnum báðar d., áður en það verður samþ. sem ályktun Alþ.

Fyrirspurn viðvíkjandi þessu var borin fram af mér á Alþ. hinn 26. marz, en. sem sagt, –engin mótmæli hafa enn komið fram opinberlega, og ég tel miklu máli skipta, að mótmælin verði birt a., m. k. í meginatriðum í blöðum og útvarpi hér á landi og blöðum þeirra þjóða, er kynnu að vilja birta þau. Á ég þar einkum við Bretland, Bandaríkin og Svíþjóð. Ég hygg, að þessar óskir mínar séu í fullu samræmi við aðferðir allra hlutlausra þjóða, er þær hafa talið sér nauðsynlegt að mótmæla aðgerðum eða yfirlýsingum einstakra ófriðarríkja, sem þær hafa álitið ranglátar eða hættulegar í sinn garð, en það hljótum við Íslendingar að álíta, að þessi yfirlýsing þýzku stj. sé.

Ég vil að endingu taka það fram, að ég tel okkur Íslendingum skylt að gera allt, sem í okkar valdi stendur, til að gera sem flestum þjóðum þetta kunnugt. Það er ekki rétt að þegja yfir því, að smánaryrði séu viðhöfð um þjóðréttarstöðu landsins.

Ég tel enga þörf á að hafa lengri framsögu í þessu máli, enda er það tekið fram í grg., hvaða ástæður liggja til grundvallar því, að þessi þál. er borin fram. Ég vi1 að lokum mælast til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til allshn.