17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í D-deild Alþingistíðinda. (3691)

100. mál, hafnbannsyfirlýsing Þjóðverja

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég sé enga ástæðu til að svara fyrirspurnum, sem fara út fyrir það mál, sem hér er á dagskrá, og snúast að mestu leyti um allt önnur mál. Í annan stað vil ég geta þess, að ríkisstj. sér enga ástæðu til þess að ráðfæra sig við hv. 5. þm. Reykv. og sálufélaga hans um viðkvæm utanríkismál. Þeir standa fyrir utan það, að þeim sé treystandi til að fara á sómasamlegan hátt með þau mál, er varða heill lands og lýðs. Ríkisstj. hefur enga yfirlýsingu gefið um það, hvað hún hefur gert í tilefni af hafnbannsyfirlýsingu Þjóðverja, og eins og nú standa sakir, getur ríkisstj. ekki gefið neinar upplýsingar í því máli.