17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (3694)

100. mál, hafnbannsyfirlýsing Þjóðverja

Flm. (Bergur Jónsson) :

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara út í neitt af því, sem hv. 4. þm. Reykv. sagði. En út af því, sem hæstv. utanrmrh. sagði, tel ég rétt að skýra frá því, að ekki muni á þessu stigi málsins hafa mikla þýðingu að heimta ákveðnar yfirlýsingar frá hálfu stj. En ég verð að gera þá aths. við ræðu hæstv. ráðh., að ég gerði það í fullu samráði við hæstv. forsrh. og hæstv. utanmrh. að geta um það, að mótmæli hefðu gengið rétta boðleið til Þjóðverja. Mér skildist líka á hæstv. ráðh., að um mótmæli hefði verið að ræða frá hálfu stj.

Ég vil svo að lokum leggja áherzlu á það atriði, að ég tel enga þýðingu hafa að vera með mótmæli eða aths. við þessa yfirlýsingu Þjóðverja frá 25. marz, öðruvísi en að jafnframt sé séð fyrir því, að mótmælanna sé getið opinberlega og þau látin koma fram út á við til fulls samræmis við það, sem annars staðar á sér stað á stríðstímum. Ég vil svo að lokum taka það fram, að ég held fast við það, að þáltill. verði vísað til hv. allshn.