12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3718)

115. mál, húsnæði handa hæstarétti

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég er undrandi yfir því, hve hv. flm. tekur það óstinnt upp, þó að ég legði til, að málið yrði athugað í n., jafnvel þó að nú líði að þinglokum. Ég benti á það í minni ræðu, að það færi til þeirrar n., sem hv. flm. er formaður fyrir, svo að afgreiðsla málsins þar yrði nokkuð á hans valdi. Ég kom með þessa uppástungu beinlínis af því að í grg. till. eru engin rök færð fyrir því, hvort nokkurt húsnæði sé til í háskólanum fyrir hæstarétt. Ég hef fyrir mitt leyti ekki lýst neinni óvild til málsins, þó að ég vildi láta athuga það í n. Ég lít þannig á þetta mál, að verði till. samþ., þá sé tæplega hægt fyrir ríkisstj. annað en fara eftir þessari áskorun, sem hefur verið samþ. af Alþ. Þess vegna lít ég svo á, að deildin eigi ekki að samþ. aðrar áskoranir en þær, sem hún veit, að ríkisstj. getur framkvæmt.

Nú hefur hv. 1. þm. Reykv. bent á, að nú muni ekki vera um annað húsnæði að ræða í háskólanum en hátíðasalinn, en mér dettur ekki í hug, að hann verði lagður niður í þágu háskólans sjálfs til þess að sjá hæstarétti fyrir húsnæði. Það má kalla þetta skilningsleysi og óvild, en ég vil benda á, að það eru fleiri stofnanir en hæstiréttur, sem eiga við slæm húsnæðisskilyrði að búa, m. a. sjálft stjórnarráðið. — Nei, hér er hvorki um óvild né skilningsleysi að ræða, þótt ég vilji ekki troða hæstarétti inn í þessa byggingu án þess að vitað sé, að þar sé húsnæði fyrir hendi og þá helzt til frambúðar.

Þetta vildi ég láta taka til athugunar, og þar sem hv. flm. hefur kallað háskólaráð til ráða í öðru máli, vildi ég gjarnan heyra álit þess um þessa till.

En ég vil taka undir með hv. flm. um það, að hæstiréttur hefur óviðunandi húsnæði, og það væri æskilegt, að unnt væri að búa honum þann stað, sem æðsta dómstóli þjóðarinnar sæmir. Hinu er ég mótfallinn, að skipa stjórninni með flausturslegri ályktun að koma honum fyrir í ákveðinni byggingu, og ef till. á ekki að fara til n., mun ég ekki greiða atkvæði um hana.