27.03.1941
Neðri deild: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

10. mál, innflutningur á sauðfé

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, því landbn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Þó vil ég með fáum orðum skýra, hvers vegna bráðabirgðal., shlj. þessu frv., voru sett 3. okt. síðastl. að tilmælum Búnaðarfél. Íslands. Með l. frá 1931 er heimilað að flytja inn brezkt holdakyn til sláturfjárbóta, þó með því skilyrði, að leyfð væri aðeins einblendingsrækt af hinu brezka Border-Leicesterfé og íslenzku fé, þannig að öllum lömbum væri lógað að haustinu. Þetta skilyrði var sett til þess að verja ísl. fjárstofninn fyrir skipulagslausri blöndun, og hefur þessu ákvæði verið framfylgt til hins ýtrasta. Þó hafa hrútlömb verið gelt og látin lifa, og hefur það virzt koma í ljós, að þau þyldu betur mæðiveiki en okkar fjárkyn óblandað. Því hefur Búnaðarfélag Íslands lagt til, að tilraun yrði gerð með að láta einblendingana lifa og æxlast saman, svo að úr því fáist skorið, hvort það kyn mundi þolnara fyrir mæðiveikinni, en sauðfjárræktarráðunautur B. f., Halldór Pálsson, hefur von um, að svo kunni að verða. Voru bráðabirgðal. því sett í haust og tilraun hafin skv. framansögðu á Hvanneyri. Landbn. fellst á réttmæti þess að setja þessi bráðabirgðal., en leggur hins vegar ríka áherzlu á, að þess verði gætt, að hér er aðeins um ,tilraunir að ræða og að skipulagslaus æxlun má á engan hátt eiga sér stað, enda séu tilraunir þessar undir fullu eftirliti ráðunauts Búnaðarfélagsins. — Hér er því ekki ætlunin, að farið verði að flytja inn fé til kynbóta.

Ég get svo látið þessar skýringar nægja, en landbn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.