09.05.1941
Sameinað þing: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í D-deild Alþingistíðinda. (3749)

58. mál, Sogsvirkjunin

*Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég get látið nægja tiltölulega fá orð um þessa till. Í rauninni flyt ég hana ekki í öðrum tilgangi en þeim, að hún mætti með væntanlegri samþykkt á hinu háa Alþ., verða til hvatningar, fremur en hitt, um framkvæmd þessara mála, með tilliti til þess, að Reykjavíkurbær er nú að gera tilraunir um það að auka einni vélasamstæðu við rafmagnsstöðina að Ljósafossi, bænum til gagns og öryggis. Ég veit, að þetta er ekki gagngert atriði út af fyrir sig í því sambandi, hvort hægt er að leiða raforkuna út um héruðin, því ef raforka væri leidd niður að Eyrarbakka og Stokkseyri, þá er það, sem þessir staðir þarfnast, svo hverfandi lítill hluti af allri orkunni, að þess gætir lítið. Vélasamstæðan framleiðir t. d. 9000 hestöfl, en þessir staðir þarfnast 600–800 hestafla, og er það ekki mikið atriði.

Ég sé, að hér er brtt. á þskj. 144 við till. mína, og er hún frá hv. þm. Rang. Er þar lagt til, að tillgr. verði orðuð um í þá áttina, að því er mér virðist, að rafveitunni sé fyrst komið á við þann endann, sem liggur fjær orkuverinu, en mér finnst þar vera byrjað á öfugum enda. Þetta er þó hugsað svo, að raforkan sé leidd út um hinar dreifðu byggðir, en það liggur þó nær, að þar sé byrjað, sem næst liggur meginstöðvunum, og haldið sé með eðlilegri framþróun áfram til meiri dreifingar, eins og gert var, þegar verið var að leggja símann um landið. Við, sem viljum byrja á réttum enda, teljum, að fyrst beri að leiða orkuna til þéttbýlisins. Hv. flm. brtt. fella inn í hana, að það sé látið ganga fyrir að dreifa orkunni um Suðurlandsundirlendið, áður en aukið er við raforkuna til Reykjavíkur og þeirra staða, sem þegar hafa fengið orku til sín. Ég get skilið þetta. En það var nú samt einmitt Reykjavíkurkaupstaður, sem hafði manndáð í sér til að fá orkuna og virkja Sogið og ætlar sér nú að auka virkjunina. Móti þeim broddum tel ég ekki viturlegt né sanngjarnt að spyrna.

Ég get að svo mæltu máli látið staðar numið í trausti þess, að hv. Alþ. taki till. vel svo sem hún er hér skráð og í þeim anda, sem ég mælti með henni.