30.04.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Bergur Jónsson:

Mér skildist á hæstv. utanrráðh., að hann áliti þá leið réttasta til þess að vinna að birtingu mótmælanna að leggja fyrir erindreka Íslendinga erlendis að vinna að því. Ég vildi aðeins í því sambandi minna á það, að Ísland hefur verið að mér skilst viðurkennt sem sjálfstætt og fullvalda ríki af tveimur stórveldum heimsins, þar sem eru Bretland og Bandaríkin í Ameríku, með því að þau hafa sent erindreka hingað til lands, sérstaklega Bretland, sem hefur sent hingað sendiherra. Ég vildi beina því til hæstv. utanrmrh., hvort hann teldi nokkuð á móti því, að ríkisstj. sjálf geti snúið sér til þeirra um það, hvort þeir vildu koma óskum Íslendinga á þessu sviði fram.

Ég ætla ekki að fara að tala um það, sem hefur komið til umtals hér á landi, hvort það hafi verið einhverra aths. von af hálfu þeirrar þjóðar, sem hefur hertekið okkur ef við ætluðum að breyta þjóðréttarstöðu pokar að nokkru leyti. En hitt vil ég minna á, að ég veit ekki betur en að í fyrravor, þegar hernám Breta á Íslandi fór fram, hafi það verið talið koma greinilega fram af hálfu þeirra, að þeir viðurkenndu réttarstöðu okkar með tilliti til sambandsl. eins og við höfum álitið hana þá vera, og eins og við höfum gert hana með bráðabirgðaþál. Alþingis eða yfirlýsingu um réttarstöðu okkar, sem gerð var strax eftir að Danmörk var hernumin. Og ég veit ekki betur en að það hafi verið talið koma fram hjá Bretum þá, að þeir mundu ekki gera tilraun til að hagga þeirri réttarstöðu. Ef þetta er rétt hjá mér, finnst mér rétt af þeirri ástæðu að álykta þannig, að það geti tæplega verið um neina fyrirstöðu að ræða af hálfu Stóra-Bretlands um að taka undir yfirlýsingar íslenzka ríkisins um það, að það hafi aðra réttarstöðu heldur en þá, sem ranglega hefur verið gefið í skyn í útvarpi, sem heyrzt hefur um heim allan.