15.04.1941
Efri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

8. mál, innanríkislán

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Þetta frv. var lagt fyrir Nd. og er upphaflega bráðabirgðal., sem voru útgefin í janúarmán. síðastl. af ríkisstj.. samkv. 23. gr. stjskr.

Eins og menn muna, var farið fram á það í bráðabirgðal. að taka 5 millj. kr. innanríkislán í þeim tilgangi að segja upp láni í Bretlandi og greiða með þessu innanríkisláni hluta þess. Og þannig var þetta lagt fyrir Alþingi. Þetta brezka lán er miklu stærra, og fer um upphæð þess eftir gengi sterlingspundsins á þeim tíma, þegar það greiðist.

Margir vildu taka hærra innanríkislán en 5 millj. til þess að geta greitt sem mest af þessu brezka láni nú þegar. Þetta var nokkuð rætt í bankaráði Landsbankans í des. síðastl., og mælti bankaráðið með því, að tekið yrði allt að 8 millj. kr. innanríkislán í þessu skyni, en taldi það hins vegar ekki hollt fyrir peningamarkaðinn að far a hærra eins og á stóð. — Brezka lánið, sem hér um ræðir, var upphaflega full 500 þús. sterlingspund, og vildu sumir greiða allar eftirstöðvar þess nú. En ríkisstj. leitaði sér með útgáfu bráðabirgðal. aðeins heimildar til að taka

5 millj. kr. lán, en hefur vitanlega hugsað sér að.. greiða. eftirstöðvarnar eins fljótt og auðið var.

Fjhn. Nd. hækkaði þessa heimild ríkisstj. upp í 10 millj. kr., og. var málið samþykkt í Nd., og þannig kom það hingað í þessa hv. d.

Fjhn. Ed. sendi bankaráði Landbankans frv. til umsagnar í þessu nýja formi. En sem svar fékk n. aðeins útskrift úr fundargerðabók bankaráðsins þ. 24. des. síðastl., þar sem mælt var með 8 millj. kr. lánsheimild.

Af þessu má sjá, að ekki eru skiptar skoðanir um nauðsyn og réttmæti þessarar lántöku út af fyrir sig, heldur hafa menn viljað fara mishátt með þessa heimild til handa stj.

Vegna þess að enginn ágreiningur var um meginatriði málsins, þá taldi fjhn. sér rétt að mæla með því, að frv. yrði samþ. í þessu formi. Enda er ríkisstj. á engan hátt skuldbundin til að nota þessa 10 millj. kr. heimild til fulls, ef henni virðist það ekki tímabært eða heppilegt. Og í framkvæmdinni hefur hún óbundnar hendur um að miða lántökuna við 8 millj. Því að þessi heimild er aðeins hámark upp á við, en ekki niður á við, fremur en réttmætt kann að þykja. — Álit Landsbankans hefur ekkert breytzt á málinu.

Hins vegar taldi n. rétt að hafa þessa heimild nægilega rúma, ef fært þætti að nota hana alla. En vera má, að þrátt fyrir hana fáist e. t. v. ekki nema 5 millj., Þegar lánið er boðið út, ef tekið er tillit til þeirra stöðugu sveiflna og óvissu, sem nú ríkir á öllum sviðum.

N. leggur því til, að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og það kom frá Nd.