30.04.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég get ekki stillt mig um að gefa nokkrar, upplýsingar út af ummælum hæstv. utanrmrh. í síðustu ræðu hans. Ég var ekki viðstaddur, þegar hv. 4. landsk. hélt ræðu sína, sem hæstv. ráðh. var að svara, en mér skildist, að hv. 4. landsk. hefði furðað sig á því, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki koma mótmælunum við brottflutningnum á framfæri fyrr en raun varð á. Hæstv. utanrmrh. sagði, að það hefði enga þýðingu haft, þó að mótmælin hefðu verið send fyrr en þetta, og er það í samræmi við þau svör, er hann veitti mér, þegar ég átti tal við hann um kvöldið, skömmu eftir handtökurnar. Vegna þessa tel ég mér skylt að skýra frá málinu eftir því, sem ég veit sannast og réttast. Menn hljóta að spyrja, hvað hæstv. ríkisstj. hafi gert til að koma í veg fyrir brottflutning mannanna. Um það, hvort árangur hefði orðið af viðleitni hennar, má deila, en hvað sem því líður, hljóta allir Íslendingar að vera sammála um það, að hæstv. stj. hefði átt að gera allt, sem í hennar valdi stóð, án tillits til þess, hverjar líkur væru fyrir árangri.

Það mun hafa náðst í þrjá af ráðherrunum Þá um kvöldið. Kona Sigfúsar Sigurhjartarsonar náði í hæstv. fjmrh., að því er ég bezt veit, og spurði hann, hvort ríkisstj. gæti ekki gert neinar ráðstafanir þá um kvöldið, en hann svaraði; að stj. gæti ekkert gert fyrr en morguninn eftir. Honum var þá bent á, að það gæti verið orðið of seint, því að líkur væru til, að mennirnir yrðu fluttir burt þá um nóttina. En hæstv. ráðh. hélt fast við sitt, þó að hann viðurkenndi hættuna.

Með aðstoð lögreglunnar tókst loks Að ná sambandi við annan ráðh. þá um kvöldið: Var það hæstv. utanrmrh., og talaði ég við hann. Spurði ég hann, hvort hann gæti engar ráðstafanir gert til að reyna að koma í veg fyrir brottflutning mannanna, með því að setja sig í samband við brezku sendisveitina. Hann kvað það ekki vera hægt. En afstaða hans er, eins og hann hefur þegar sagt, sú, að það hefði ekki verið til neins. Hinu getur hver trúað, sem vill, að nokkur ríkisstj. í víðri veröld sé svo aum, að hún geti ekki náð í sendiherra erlends ríkis seint á degi, þegar mikið liggur við.

Þá voru loks gerðar ráðstafanir til að ná í hæstv. forsrh. Kom brátt í ljós, hvar hann var niður kominn. Hann var í veizlu. Lögreglustjóri nær í hæstv. forsrh., og ég hringi til hans. Hann lætur svara því, að nú sé enginn viðtalstími, og spyr, hvort ekki megi afgreiða málið á morgun. Ég bið þá um ákveðið svar við þeirri spurningu, hvort hann vilji tala við mig þá um kvöldið eða ekki: Var lofað að skila þessu. Ég bíð eftir svarinu, sem kemur ekki, hringi síðan aftur, og er mér þá sagt, að ráðh. sé farinn.

Þegar slíkir atburðir gerast sem handtaka og brottflutningur fyrrnefndra manna, er þetta svo kaldranaleg framkoma íslenzku ríkisstj., að erfitt er að átta sig á því, að það sé í raun og veru íslenzk ríkisstj., sem á slík skipti við íslenzka borgara.

Viðvíkjandi hinu, sem hæstv. utanrmrh, sagði, að ríkisstj. gæti ekki gert samninga við brezku herstjórnina um skilyrði fyrir því, að Þjóðviljinn fengi að koma út, eða reglur þær, sem hann yrði að haga sér eftir í skrifum sínum, til þess að útkoma hans yrði leyfð, vil ég upplýsa þetta : Brezka herstjórnin hefur haft stöðugt eftirlit með Þjóðviljanum sem öðrum blöðum hér og tilkynnt ritstj. hans, að blaðinu væri frjálst að skrifa eins og það vildi og ræða jafnvel afstöðu sína til Breta eftir sinni stefnu, en Bretar gætu hins vegar ekki þolað, að birtar væru upplýsingar varðandi hernaðaraðgerðir, er talizt gætu öryggi þeirra hættulegar. Þjóðviljinn hefur reynt eftir megni að þræða þetta. Hefur herstjórnin oft fundið að ýmsu í skrifum blaðsins, en það hefur komið í ljós, að sams konar óvarkárni hefur einnig átt sér stað hjá hinum blöðunum, og hafa Bretarnir sjálfir viðurkennt, að Þjóðviljinn hafi verið varkárari en önnur blöð í þessu efni, svo sem líka er eðlilegt. En þess var ekki að vænta, að Þjóðviljinn færi að marka sér þrengri bás en krafizt var. Hefði herstjórnin markað honum þrengri bás, þá hefði hann vitanlega reynt að hegða sér eftir því.

Skömmu eftir brottflutninginn talaði ég við yfirmann þann í brezka hernum, sem er aðili málsins, og spurði ég hann, hvaða skilyrði þeir settu fyrir því, að blaðið fengi að koma út. Hann sagði, að Bretar gætu ekki þolað áróður gegn hernaðarráðstöfunum þeirra hér á landi. Hér á landi, sagði hann. Ég spurði hann þá, hvort Þjóðviljinn mundi ekki fá að koma út, ef hann væri skrifaður í samræmi við þessa kröfu, en hann svaraði, að héðan af kæmi það ekki til mála. Þessar upplýsingar gef ég í tilefni af þeim ummælum hæstv. utanrmrh., að það standi opið að semja við herstj. Það stendur alls ekki opið. Þjóðviljinn er bannaður undir öllum kringumstæðum. En hitt tel ég skyldu hæstv. ríkisstj., að krefjast þess, að eini andstöðuflokkurinn í landinu fái að gefa út blað sitt. Undan þessari skyldu getur hún ekki skotið sér.