15.04.1941
Neðri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Bjarni Bjarnason:

Ég þykist hafa gert grein fyrir minni skoðun á þessu máli, en vil þó bæta því við í sambandi við það, sem síðasti ræðumaður sagði, að það getur vel verið, að til séu í sveitum skólahús, sem eru óhentug, — meira að segja meðal annars fyrir þær sakir, að þau eru of kostnaðarsöm vegna viðhalds o. fl. Það þarf ekki að koma með nein sérstök dæmi um þetta. Við vitum, að þar sem mörg börn eiga að dvelja sumarlangt, mundi slíkt hús breytast töluvert til hins verra á þeim tíma, og getur verið kostnaðarsamt að gera það eins gott aftur. Fjárhagslega séð gæti jafnvel verið hentugra að hafa önnur ráð, t. d. að byggja alveg nýtt sumarhús.

Um umr. í Ed. veit ég ekki og veit því ekki, hvað hv. þm. á við, en sá í blöðunum, bæði hans og öðrum, hnútum beint að einum ákveðnum manni og vildi því nota tækifærið til að beina því sérstaklega til þess ráðh., sem fer með réttarfarið í landinu, hve lengi það á að ganga, að Þjóðviljinn svívirði menn svo sem hann gerði í þessu tilfelli. Þar er því beinlínis dróttað að hv. þm. S.-Þ., að hann láti sig engu skipta, hvort börn og konur drepist, ef hægt er að bjarga einhverju húsi frá leigunámi. Ég vildi því spyrja hæstv. dómsmrh., hve lengi þetta ætti að líðast.

Ég veit ekki til þess, að orð mín hafi gefin tilefni til þess að ætla, að mér fyndust einstaka hús of fín í því augnamiði. En það getur verið allt of dýrt og óhentugra fyrir þá n., sem á að fjalla um þetta mál, að taka hús, sem t. d. eru margar hæðir. En hvort Laugarvatn verður tekið eða ekki, skiptir mig engu máli, og ætla ég því ekki að gera neinar athugasemdir umfram þær, sem eru í minni fyrri ræðu. Það er heldur ekki rétt, að það séu einungis efnamenn úr Reykjavík, sem þar dvelja, því að meira að segja góðir menn úr hans flokki, sem ekki geta kallazt neinir efnamenn, njóta þar hvíldar, vegna þess að þeim líður vel þar, úr því hann tók Laugarvatn.