18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Bjarni Bjarnason:

Það er stutt fyrirspurn til allshn. eða frsm. n. í þessu máli viðvíkjandi sumarbústöðunum. Frsm. gat um það, að n, liti ekki svo á, að taka bæri húsnæði í sveitum til þessara nota, sem notað væri að einhverju leyti til heimilisþarfa, m. a. vegna heimilisfriðhelginnar. En hvernig lítur n. á sumarbústaðina? Telur frsm. n., að þar sé um að ræða heimili þeirra manna, sem þá eiga og nota, þrátt fyrir það þó að þar væri pláss fyrir fleiri en þá, sem eiga þá og nota? Ég spyr um þetta vegna þess, að ég benti á það við 1. umr. málsins, að ég teldi rétt, að sumarbústaðirnir kæmu til greina í þessu sambandi, líka vegna þess, að annars kæmi það misjafnt niður, ef tekin væru öll hús, sem fólk að þessu hefur haft til sumardvalar, það fólk, sem ekki á sumarbústaði, en hins vegar væru þeir, sem sumarbústaðina eiga, ekkert látnir á sig leggja fyrir þetta mál. Margt fólk á sumarbústaði víða um landið, án þess þó að það fólk eigi nein börn. Þess vegna er þetta athugandi, og langar mig til að heyra, hvort það hefur komið til orða í n., hvort t. d. sumarbústaðirnir heyrðu undir þetta ákvæði frv.: „og annað nothæft húsnæði í sveitum“ — eins og það orðalag kemur í frv. eftir að hv. Ed. hefur breytt því. Þetta get ég hugsað mér, að yrði framkvæmt eftir því, hvernig umr. féllu um þetta atriði.