18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Bjarni Bjarnason:

Ég vil ekki tefja Þetta mál, því að ég tel sjálfsagt, að það nái fram að ganga og ekki ástæðu til að hindra það eða draga að samþ. það. Og tel ég vel ráðið af hæstv. forseta að taka það til 2. og 3. umr. nú þegar. Hitt þykir mér einkennilegt, að þær n., sem starfað hafa að undirbúningi þessa máls, brottflutningi fólks úr kaupstöðum, skuli ekki færa málið neitt í tal við þá menn, sem hafa ráð á miklum húsum í sveit. Og það er líka dálítið einkennilegt, að það skuli beinlínis falla orð frá hv. formælendum frv. um, að það sé bezt að gera ekkert í þá átt fyrr en þessi lagaheimild sé komin það langt, að það þurfi þá ekki að taka langan tíma að taka húsin, og jafnvel að það þurfi þá ekki að semja við menn um þessi atriði. Ég læt þessi orð falla aðeins að gefnu tilefni. Ég hafði bent á þann möguleika í sambandi við einstök, nokkuð rúmgóð hús úti á landi, hvort ekki væri hægt . að láta nokkuð af þeim húsakynnum að láni fyrir börn og mæður samkvæmt efni þessa frv. og nokkuð væri hægt að nota til þess, eins og á undanförnum árum, að taka á móti sumargestum. Mér hefur verið svarað því, að það mundi ekki verða þolað, að einhleypt fólk eða barnlaust fólk tæki upp nokkurt slíkt húsnæði. Út frá þessu sjónarmiði gerði ég fyrirspurn mína til hv. frsm. allshn. í þessu máli. Mundi það þá ekki líka verða illa séð, ef rúmgóðir sumarbústaðir væru látnir afskiptalausir, ef þeir væru ekki notaðir af öðrum en barnlausu fólki, jafnvel stórir sumarbústaðir, sem rúmuðu fleira fólk heldur en notaði þá? Mér er ekki grunlaust um, að þarna verði ólag á framkvæmdum í þessum efnum. Ég vil ekki fara sterkari orðum um það að þessu sinni. En ég hef dregið þarna fram tvö hliðstæð dæmi. Ef það er óánægjuefni, að húsnæði, sem notað hefur verið til að taka á móti gestum undanfarin ár, sé ekki notað fyrir börn og mæður þeirra, þá verður líka óánægja yfir því, ef sumarbústaðir, sem barnlaust fólk á og notar, verða ekki notaðir til fullnustu. Á Þingvöllum er stór bústaður, sem kallaður hefur verið konungsbústaður, en nú er kallaður ráðherrabústaður. Þetta er stór bústaður, sem notaður hefur verið til sumardvalar, — en mér dettur í hug: Verða þessi hús tekin, eða nokkuð af þeim, fyrir börn og mæður? Ég nefni þetta sem dæmi. Ég mun fylgjast vel með því, hvort þessi leigunámsheimild um húsnæði í sveitum verður látin ganga jafnt yfir alla, sem eins stendur á fyrir. Á sama hátt sem allir eiga að stuðla að því, að hægt sé að hjálpa börnum og mæðrum þeirra hér í Reykjavík til þess að komast upp í sveit, ef álitin er hætta við að dvelja hér, eiga allir einnig að fylgjast með því, að þessi heimild verði notuð hlutdrægnislaust í þarfir þess málefnis, sem hún er sett fyrir.