18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Eins og menn vita, er verið að ráðstafa dvöl barna, sérstaklega kaupstaðabarna, utan. kaupstaðanna, og er því nauðsynlegt, að frv. þetta geti orðið að l. strax. Hygg ég, að það vaki fyrir hæstv. forseta að reyna að afgreiða frv. í dag, svo að ekki þurfi að halda fund á morgun, því að það mundi verða nauðsynlegt, ef ekki væri hægt að koma málinu af nú.

Hv. 1. þm. Rang. lét í ljós kvíða um það, að með þessu væri höggvið nærri ýmsum mönnum. En ég get lýst yfir því, að ríkisstj. mun ekki fela öðrum aðilum að dæma um það, hvenær taka skuli húsnæði leigunámi, heldur ákveða þetta sjálf. Ég get líka lýst yfir því, að ekki mun verða höggvið nærri mönnum fyrr en í fulla hnefana, og mun verða kappkostað að nota hús, sem ekki er annars búið í, svo sem skólahús, þinghús o. s. frv. Ég vænti þess vegna, að hv. 1. þm. Rang., sem óskað hefur þess, að málinu verði frestað, láti sér lynda, að það verði látið ganga áfram, eftir að hafa fengið þessa yfirlýsingu og svo yfirlýsingu hv. frsm. n. um skilning hennar á því, hvernig þessa heimild beri að nota. Vil ég því spyrja hann, hvort hann vilji ekki sætta sig við það, að málið verði afgreitt nú þegar úr hv. deild.