18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 254 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Sveinbjörn Högnason:

Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir upplýsingar þær, sem hann hefur gefið. Ég hafði ekki gert ráð fyrir því að ríkisstj. mundi sjálf ákveða þetta, fyrr en ég heyrði hann taka það fram. Er þá ekki síður séð fyrir hagsmunum þeirra, sem eiga að láta húsnæðið af hendi, en hinna, sem eiga að fá það, svo að ég get fallið frá þeirri ósk, að hæstv. forseti fresti málinu til næsta dags, þar til gengið hafi verið frá framkvæmdaratriðum. Hitt var ófullnægjandi, sem hv. frsm. sagði, að það væni nóg að láta stj. hafa þessa heimild, eins og gert er með 1. gr. frv., því að venjulega notar stj. ekki slíkar heimildir öðruvísi en svo að fela ákveðnum aðilum framkvæmdina.

Þá vil ég spyrja hæstv. viðskmrh., sem er víst einn ráðh. viðstaddur, hvort séð verður við framkvæmd leigunámsins fyrir þörfum sveitanna á húsnæði til fundahalda. Getur það verið, að sumum þyki hlægilegt, að sveitafólk þurfi að koma saman, ráða ráðum sínum og sjá fyrir nauðsynlegum menningarstörfum, þrátt fyrir allt þetta. En vitanlega verður lífið að ganga sinn gang í sveitunum, og það getur ekki orðið, nema fólk geti komið saman, ef nauðsyn krefst. Ég spyr því hæstv. ráðh., hvort séð muni verða fyrir þessu.

Loks vil ég, þar sem málinu verður sennilega ekki frestað, bera fram skrifl. brtt. frá mér og hv. þm. V.-Húnv. til áréttingar þeim skilningi, sem fram hefur komið, að leggja beri í frv. Hún er þannig, að á eftir orðunum „og annað nothæft húsnæði í sveitum og kauptúnum“ komi orðin: sem eigendur eða umráðamenn þurfa ekki til eigin nota. — Ég tel ekki ástæðu til að hafa þetta víðtækara, og þykir mér því rétt, að þessi leiðrétting komi þarna inn í frvgr., því að annars hlýtur mann að gruna, að eitthvað meira eigi að felast þarna í en látið er í veðri vaka, svo að búast megi við, að tekið verði leigunámi annað húsnæði en bráðnauðsynlegt verður að telja.