18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Sveinbjörn Högnason:

Það er í rauninni ekki þörf á því að ræða þetta mál nánar. Eftir yfirlýsingu hæstv. ráðh. að dæma vakir það sama fyrir honum og okkur. En samt verður að teljast óviðkunnanlegt að afgreiða frv. eins og það er, þó að engum detti í hug að framkvæma heimildina á þann hátt sem hún er fram sett í frv. Hví má ekki láta það koma skýrt fram í orðalaginu, hvernig þetta á að vera? Hæstv. ráðh. spurði, hver ætti að skera úr um það, hvort húsráðandi þyrfti á húsnæði að halda eða ekki. Brtt. okkar nær aðeins til nothæfs húsnæðis, og sá, sem sker úr um það, hvort húsráðandi þar í á húsnæðinu að halda, er auðvitað ríkisstj., sem heimildina fær. (Viðskmrh.: Þá er efnisbreytingin engin). Nei, í framkvæmd verður breytingin ekki mikil, þó að till. okkar verði samþ., en hins vegar er alveg ósæmandi fyrir Alþ. samþ. frv. eins og það er. Það er eins og þeir, sem hafa samið það, hafi ekkert vald á íslenzku máli og geti ekki látið það túlka það, sem þeim býr í brjósti.