18.04.1941
Neðri deild: 40. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Síðan þetta mál var til 2. umr. hér í hv. þd. hefur allshn. haldið fund um málið og athugað þær till., sem fram höfðu komið á þskj. 216, og síðan hefur n. borið fram brtt. við fyrri málsgr. 1. gr. frv. á þskj. 215 og telur réttast, að orðalag 1. gr. sé eins og þar segir. Munur á. brtt. n. og fyrri málsgr. frvgr. er sá, að í brtt. er . gert ráð fyrir, að það húsnæði, sem tekið er leigunámi, sé fyrir börn og mæður þeirra, hvort sem það er í kaupstöðum eða kauptúnum eða annars staðar. Það þótti sem sé ekki rétt að binda þetta við kaupstaði og kauptún, því að vitanlega vakir það fyrir löggjafanum með þessum ráðstöfunum að koma börnum og mæðrum þeirra af hættustöðum á öruggari staði. N. leit svo á, að þótt litið sé svo á, að hættan sé mest í kaupstöðum og kauptúnum, þá geti líka verið hætta á loftárásum utan kaupstaðanna sjálfra. Eina breyt., sem n. gerir á frvgr., er því í þessu fólgin. Það er rétt að taka það fram, að þótt hér sé sagt, að þetta húsnæði eigi að vera fyrir börn og mæður þeirra, þá er átt þarna við fósturmæður, stjúpmæður eða fóstrur yfirleitt, sem sé þær konur, sem hafa uppeldi eða pössun barnsins í sínum höndum.

Út af brtt., sem hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. V.-Húnv. flytja á þskj. 216, vil ég taka það fram, að n. sá ekki ástæðu til þess að mæla með að samþ. till. Það er sem sé upplýst og yfirlýst af viðskmrh., að öll framkvæmd þessara mála verði í höndum ríkisstj. sjálfrar, þannig að ekkert er unnið við það að fara að taka leigunámi hús, sem ríkisstj. sjálf telur ekki beina nauðsyn á að taka leigunámi. Með því er það tryggt, að bæði er tillit tekið til þess, sem húsnæðið tekur, og einnig þess, sem verður að láta það af hendi. Þá er einnig með þessu fullt tillit tekið til þess, til hvers húsnæðið hefur verið notað og hvort brýn nauðsyn geri það að verkum, að þörf sé á að taka þetta eða hitt húsnæði eða hvort eigandi eða umráðamaður þess húsnæðis hafi brýna þörf fyrir það.

Að öðru leyti hefur verið lýst yfir því að þessum sama hæstv. ráðh., að það, sem átt er við með „nothæft húsnæði“, sé fyrst og fremst skólahús, fundahús, þinghús og í öðru lagi annað það húsnæði, sem telja megi án baga fyrir þá, sem annars eiga að hafa not af því, að missa það, t. d. margs konar geymslur eða pakkhús, eins og t. d. á stöðum, þar sem gömul verzlunarhús eru og ekki álitin þar vera nein hætta vegna loftárása, en geta verið vel fallin til þess að láta börn og konur dvelja þar. Þá má einnig nefna í slíkum tilgangi skíðaskála og leikfimihús. Þessi hús öll gætu fallið undir ákvæðið „annað nothæft húsnæði“. En hins vegar er lýst yfir því af viðkomandi ráðh., að hér sé ekki átt við nema brýna nauðsyn beri til að taka til afnota í þessu skyni hús, sem er að einhverju leyti búið í áður. Það er ekki ætlazt til þess, að sveitabæir eða sumarbústaðir verði teknir til þeirra afnota, ef völ er á öðru húsnæði, sem ekki er notað. Það er hins vegar ástæða til að taka þetta fram hér í frvgr. af þeirri ástæðu, að ef virkilega kæmi til bráðrar hættu, t. d. ef gerð yrði loftárás á Reykjavík, Hafnarfjörð eða Siglufjörð eða aðra staði, þar sem menn álíta, að hætta geti verið á loftárásum, þá er það vitað, að það húsnæði, sem annars er ekki kostur á, þó að það sé að einhverju leyti notað, yrði þá tekið til þeirrar notkunar.

Það, sem mér virðist hv. 1. þm. Rang. leggja mesta áherzlu á, er, að ef þetta húsnæði þyrfti að nota af umráðamönnum sjálfum til eigin nota, þá væri ekki heimilt að taka það. Hv. þm. viðurkenndi þó, að gefnu tilefni frá hæstv. ráðh., að það væri komið undir úrskurði ráðh. eð1 stj., en ekki úrskurði eiganda eða umráðamanns, hvort hann álíti, að þyrfti að nota þetta eða ekki. Það er játað, að enginn efnismunur er á því, sem hv. þm. vildi láta koma fram í frvgr. í sinni till., ef hún væri samþ., og á frvgr. án samþ. till. Að gefinni þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. ráðh. gaf, áleit n. ekki ástæðu til þess að breyta frvgr.

Ég held þá, að ég hafi gert grein fyrir því, sem vakti fyrir n. í þessum efnum, og að öðru leyti vísa ég til þeirra umr., sem fram hafa farið um málið í dag.